Rekstur flutningskerfisins

Afltoppur ársins

Afltoppur ársins 2015 mældist 25. febrúar og var hann 2.301 MW sem er 2,11% hærra gildi en árið 2014. Heildarúttekt úr flutningskerfinu árið 2015 nam 17.744 GWst sem er 3,59% hækkun milli ára. Flutningstap í kerfinu nam 2,04 % af innmötun, eða samtals 370 GWst, og hækkaði því hlutfallslega um 2,39% milli ára.

Vaxandi rekstraráhætta

Áraun á flutningskerfið jókst enn frekar á árinu 2015 og kom fram í vaxandi rekstraráhættu. Helstu ástæður eru almenn álagsaukning forgangsálags ásamt töluverði aukningu hjá notendum með samninga um skerðanlegan flutning. Má þar nefna gagnaver, aukin umsvif ferðaþjónustu, fiskvinnslu og aukna frystingu sjávarafla í landi. Aukin flutningsþörf á milli landshluta er m.a. til komin vegna þess að vöxtur raforkuframleiðslunnar heldur ekki í við eftirspurnina. Á sama tíma miðar styrkingu flutningskerfisins hægt sem eykur þörfina á viðhaldi, m.a. vegna þess hversu gamalt kerfið er orðið.

LNDSKORTBREUTA_path_2_litlagad

Stöðugt er fylgst með orkuflutningi um níu skilgreind flutningssnið í kerfinu sem sjá má á kortinu hér fyrir ofan. Þegar truflanir verða í kerfinu eykst hætta á straumleysi ef flutningur um snið er nálægt, eða yfir öryggismörkum. Á línuritinu hér fyrir neðan er sýndur orkuflutningur fyrir átta flutningssnið allt árið 2015 og sést þar að flutningskerfið var rekið yfir öryggismörkum stóran hluta ársins. Við slíkar aðstæður þarf stjórnstöð Landsnets að fara fram á breytingar á vinnsluáætlunum framleiðenda, þ.e. hvar rafmagn er framleitt á landinu og einnig þarf að grípa til viðvarandi skerðinga á tilteknum landsvæðum. Rekstur af þessu tagi hefur því í för með sér óhagræði fyrir alla sem tengjast flutningskerfinu.Mótvægisaðgerðir

Til að hamla gegn áhættu í rekstri flutningskerfisins og auka raforkuflutning milli landsvæða er stuðst við breytileg flutningsmörk, þar sem tekið er tillit til stöðu framleiðslueininga og álags og hægt að grípa hratt til skerðinga ef kemur til truflana. Einnig hafa ýmsar tæknilausnir verið prófaðar. Dæmi um það er nýr aflrofi í tengivirki í Sigöldu og aðrar breytingar sem gerðar voru þar til að auka rekstraröryggi og flutningsgetu í sniði IV.

Þá er stjórnstöð Landsnets orðin afar háþróuð tæknilega þegar kemur að bættri orkustjórnun og öllum resktri flutningskerfisins og starfsfólkið sérþjálfað í vinnubrögðum til að meta stöðu kerfisins og rekstraráhættu samkvæmt fyrirfram skilgreindum ferlum.

Snjallnetslausnir tryggja mjög hraðvirka skerðingu hjá notendum sem eru með samninga um skerðanlegan flutning, bæta álagsjafnvægi milli svæða með álagsstýringu álvera og stýra uppskiptingu flutningskerfisins í minni einingar í truflunum til að tryggja rekstraröryggi notenda. Þá eru í undirbúningi hraðvirkari stýringar framleiðslueininga í truflanatilvikum, auk þess sem stöðug veðurvöktun og forvarnir í samstarfi við viðskiptavini eiga að tryggja markviss viðbrögð til að lágmarka áhrif veðurtruflana á raforkuflutninga.

Helstu rekstrartruflanir í flutningskerfinu

Fyrirvaralausum rekstrartruflunum í flutningskerfinu fjölgaði um 29 milli ára, úr 69 árið 2014 í 94 árið 2015. Bilunum fjölgaði einnig verulega á milli ára, eða úr 83 árið 2014 í 159 árið 2015 sem þýðir að fleiri en ein bilun kom fram í nokkrum tilvikum. Skerðing á orkuafhendingu vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana í flutningskerfinu nam samtals 897 MWst sem samsvarar tæplega 27 straumleysismínútum. Áréttað skal að hér eru ekki meðtaldar skerðingar á raforku til notenda á skerðanlegum flutningi.

Helstu truflanirnar sem ollu skerðingu á afhendingu rafmagns til viðskiptavina voru þessar:

8.1.2015 sló eldingu niður í Hvolsvallarlínu 1, milli Búrfells og Hvolsvallar. Hún sló út og skemmdist og yfirspennuvari við spenni 1 á Hvolsvelli sprakk. Rafmagnslaust varð á Hvolsvelli, Rimakoti, Vík og Vestmannaeyjum. Skerðingin á forgangsálagi var metin 23 MWst og um 36 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

25.1.2015 sló Glerárskógalína 1 út vegna óveðurs. Snjallnet á Vestfjörðum ræsti strax varaaflsstöð í Bolungarvík og því varð straumleysi á norðanverðum Vestfjörðum minna en ella hefði orðið. Mjólká sá um suðurfirðina og varð ekkert rafmagnsleysi þar á forgangsálagi. Skerðing vegna þessa var um 5 MWst og hjá notendum á ótryggum flutningi um 41 MWst.

31.1.2015 varð truflun í fjarskiptabúnaði á Kolviðarhóli sem sló út með stuttu millibili Kolviðarhólslínu 1, milli Geitháls og Kolviðarhóls, og Búrfellslínu 2, milli Kolviðarhóls og Búrfells. Það varð til þess að allar vélar í Hellisheiðavirkjun leystu út, undirtíðni myndaðist í kerfinu og leysti út hluta af álagi stóriðjunotenda ásamt notendur með skerðanlega samninga. Skerðing á forgangsálagi var metið á um 150 MWst og um 286 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

6.2.2015 fauk og festist járnplata í Suðurnesjalínu 1 við Ásbrú í miklu hvassviðri þannig að rafmagnslaust varð á öllu Reykjanesi og einnig leystu út vélar í Reykjanesvirkjun og í Svartsengi. Rafmagnslaust varð einnig á Keflavíkurflugvelli þar sem varaafl brást en skerðing á forgangsálagi vegna þessa atburðar var metið á um 22 MWst og um 10 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

7.2.2015 gekk suðvestan ofsaveður yfir norðanvert landið og varð samsláttur á Rangárvallalínu 1, milli Rangárvalla og Varmahlíðar. Við það fór spennan á Rangárvöllum í 148 kV og leiddi til bilunar á fjarskiptabúnaði í Varmahlíð. Skerðing á forgangsálagi hjá stórnotendum var um 27 MWst vegna þessa og um 5 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

14.3.2015 var mikil áraun á flutningskerfi Landsnets þegar kröpp lægð með tilheyrandi ofsaveðri og miklu vindálagi fór yfir landið. Meðalvindur var yfir 40 m/s og fór vindurinn um og yfir 60 m/s í hviðum. Svo mikill var atgangurinn að línur á 220kV spennu, sem alla jafna fara ekki út nema eitthvað mikið gangi á, voru að slá út. Alls leystu 19 línur út óveðrinu og sumar þeirra oftar en einu sinni. Þannig slógu Sogslína 3/Búrfellslína 3 út sjö sinnum, Glerárskógalína 1 fimm sinnum, Neskaupstaðarlína 1 fjórum sinnum, Hrútatungulína 1 sló út þrisvar og Grundarfjarðarlína 1 sló út tvisvar. Alls leystu 13 línur út einu sinni en það voru Laxárvatnslína 1, Vatnshamralína 1, Ísafjarðarlína 1, Breiðadalslína 1, Mjólkárlína 1, Kolviðarhólslína 1, Búrfellslína 3, Laxárlína 1, Hveragerðislína 1, Tálknafjarðarlína 1, Búrfellslína 2, Andakílslína 1 og Geiradalslína 1. Skerðing á forgangsálagi var metin um 38 MWst í þessari truflun og 273 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

22.7.2015 bilaði varnarbúnaður fyrir Vatnfellslínu 1 í Sigöldu. Aðeins tveir af þremur fösum línunnar leystu út og sló þá safnteinavörn í tengivirkinu út öllum aflrofum á teininum. Við það sveiflaðist tíðni í kerfinu frá 48,4 í 51,5 Hz og olli útleysingu hjá nokkrum stórnotendum og notendum á ótryggum flutningi  á Norðvesturlandi og skiptu þá kerfisvarnir í Blöndu og Hólum kerfinu í tvær eyjar. Skerðing á forgangsálagi var metið á um 144 MWst og 7 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

3.9.2015 sló spennir 1 í Rimakoti út og straumlaust varð í Vestmannaeyjum og hjá viðskipavinum RARIK á Suðurlandi. Þar sem engin bilun fannst í spenninum var reynt að koma honum ítrekað aftur í rekstur en það gekk ekki. Varaafl var keyrt í Eyjum og varaspennir tengdur í Rimakoti meðan viðgerð á spenninum fór fram. Eftir umfangsmikla bilanaleit og greiningu fannst bilun í þrýstinema á tanki spennisins. Skerðing hjá forgangsnotendum var metin á um 44 MWst og um 22 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi.

7.- 8.12.2015 gekk fárviðri yfir landið sem hafði í för með sér umtalsvert straumleysi og tjón á flutningskerfi Landsnets, einkum vegna mikils vindálags og ísingar. Mesta straumleysið varð á Eyjafjarðarsvæðinu og Akureyri þegar bæði Rangárvallalína 1 og Kröflulína 1 leystu út. Ástandið var einnig slæmt á norðanverðum Vestfjörðum, Austfjörðum og Suðurlandi. Mest varð tjónið á Vestfjörðum þar sem 20 möstur gáfu sig í Breiðadalslínu 1 í Dýrafirði. Á Norðurlandi brotnuðu tvö möstur í Rangárvallalínu 1 í Skagafirði og fjögur möstur í Kópaskerslínu 1. Á Austurlandi brotnuðu fjögur möstur í Teigarhornslínu 1 og skemmdir urðu einnig á Eyvindarárlínu 1, Prestbakkalína 1, milli Sigöldu og Hóla við Hornafjörð, skemmdist einnig. Samanlögð skerðing vegna þessara truflana var metin um 330 MWst á forgangsálagi og um 3.000 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi, þar af 2.600 MWst hjá notendum á ótryggum flutningi á Vestfjörðum sem fengu ekki rafmagn fyrr en viðgerð lauk á Breiðadalslínu 1, sex dögum eftir óveðrið gekk niður.

17.12.2015 sló Geiradalslína 1 út vegna veðurs og urðu þá notendur í Geiradal og á Vestfjörðum straumlausir, að undanskilinni Keldeyri sem fékk forgangsálag frá Mjólkárvirkjun. Varaaflsvélar í Bolungarvík fóru strax í gang og u.þ.b einni mínútu síðar var komið rafmagn á norðanverða Vestfirði. Skerðing hjá forgangsnotendum var metin um 35 MWst og um 211 MWst notendum á ótryggum flutningi.

Orðskýringar

Skert raforka er raforka sem ekki er unnt að afhenda einum eða fleiri notendum vegna bilunar í raforkukerfinu, breytinga á því, viðhaldsvinnu eða takmarkana í flutningsgetu.

Lína leysir út. Lína hætti að flytja rafmagn.

Eyjarekstur er tímabundinn rekstur tveggja eða fleiri hluta flutningskerfisins sem hafa verið rofnir frá hvor öðrum og eru þar með ekki samfasa.

Afhendingaröryggi flutningskerfisins

Mæling á straumleysismínútum vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana er mælikvarði sem notaður hefur verið frá árinu 1987 við mat á áreiðanleika flutningskerfisins hér á landi. Landsnet birtir þessa mælingu í árlegri frammistöðuskýrslu þar sem samanlagt straumleysi til forgangsnotenda er sett fram með þessum mælikvarða.

Þrátt fyrir aukinn fjölda truflana á síðustu árum og sífellt áhættusamari rekstur vegna aukins aflflutnings eftir byggðalínunni hefur Landsnet náð að uppfylla markmið um að straumleysi til forgangsorkunotenda sé innan við 50 mínútur á ári.

Mælt straumleysi aðeins um 27 mínútur 2015

Árið 2015 var heildarfjöldi fyrirvaralausra truflana 94 sem er 50% yfir meðaltali síðustu 10 ára. Þrátt fyrir það var mælt straumleysi til forgangsnotenda aðeins 26,6 mínútur. Þessi frammistaða er sambærileg því sem gerist á hinum Norðurlöndunum sem og víðar í Evrópu og er Landsnet stolt af því að geta boðið forgangsnotendum svona áreiðanlega afhendingu raforku.

Mælikvarðinn „straumleysismínútur til forgangsorkunotenda“ gefur samt sem áður ekki heildarmynd af áreiðanleika flutningskerfisins sjálfs. Til að átta sig á henni þarf að skoða magn varaafls, sem er keyrt í truflunum, ásamt beitingu raforkuskerðinga til notenda sem eru á ótryggum flutningi.

Varaaflsstöðvar eru alltaf ræstar eins fljótt og auðið er í kjölfar rekstrartruflana, ef þær eru tiltækar, til að draga úr straumleysi hjá forgangsnotendum dreifiveitna. Jafnframt er orka til notenda, sem Landsnet hefur heimild til að skerða fyrirvaralaust, skert ef þörf krefur. Með síaukinni notkun snjallnetslausna eru þessar skerðingar nú framkvæmdar sjálfvirkt að stórum hluta. Það hefur stuðlað að auknum stöðugleika í rekstrartruflunum og þar með áreiðanlegri afhendingu til forgangsnotenda.

Skerðingar notenda á ótryggum flutningi eru ekki taldar til straumleysismínútna og eru því ekki taldar með hér.

 Varaflskeyrsla hefur tífaldast á þremur árum

Skoðun sýnir að varaaflskeyrsla vegna fyrirvaralausra truflana hefur tífaldast á  síðustu þremur árum. Stór hluti varaaflskeyrslu ársins 2015 var vegna truflana í fárviðrinu 7. og 8. desember þegar Breiðadalslína 1 á Vestfjörðum og Kópaskerslína 1 á Norðausturlandi urðu fyrir miklu tjóni. Samtals nam rafmagn framleitt með varaaflsstöðvum vegna truflana um 1.951 MWst á liðnu ári. Ef ekki hefði verið aðgengi að varaafli má ætla að straumleysi hjá forgangsnotendum hefði verið 84,4 mínútur árið 2015 í stað 26,6 mínútna, eða 57,8 mínútum lengra straumleysi en var í raun.

Skerðingar til notenda á ótryggum flutningi hafa fjórfaldast á þremur árum

Skoðun gagna sýnir sömuleiðis að skerðing á rafmagni til notenda á ótryggum flutningi hjá dreifiveitum hefur tæplega fjórfaldast á þremur árum vegna rekstrartruflana. Sú raforka, sem skert var á síðasta ári vegna truflana, nam 4.376 MWst. Ef ekki hefði verið heimild til skerðinga hefði aflskortur af þessari stærðargráðu haft verulega neikvæð áhrif á mælikvarða Landsnets um straumleysismínútur, eða til hækkunar um sem nemur 129,6 mínútum árið 2015.

Flutningskerfið víða yfirlestað

Mikil aukning í keyrslu varaafls í rekstrartruflunum og beiting skerðinga gagnvart notendum á ótryggum flutningi sýnir með skýrum hætti hvert stefnir og að flutningskerfið er víða yfirlestað. Ef ekki væri til staðar aðgangur að varaafli og heimildir til skerðinga væri afhendingaröryggi flutningskerfisins langt fyrir neðan þau viðmið sem almennt eru notuð til að meta áreiðanleika flutningskerfa. Raunveruleg frammistaða flutningskerfisins hefði þá verið um 214 straumleysismínútur árið 2015 en ekki 26,6 straumleysismínútur.

Til að tryggja rekstur raforkukerfis þannig að það geti séð öllum notendum á landinu fyrir rafmagni er nauðsynlegt að styrkja innviði þess. Snjallnetslausnir og aukin keyrsla varaafls eru tímabundnar lausnir, plástrar sem hvorki auka flutningsgetu né áreiðanleika til langs tíma.


Varaaafl og snjallnet á Vestfjörðum from Landsnet on Vimeo.

Afhendingaröryggi á Vestfjörðum – fyrsta árið með snjallneti og nýrri varaaflsstöð

Árið 2015 var fyrsta heila rekstrarár nýrrar varaaflsstöðvar í Bolungarvík og snjallnets á Vestfjörðum. Prufukeyrsla hófst í desemberbyrjun 2014 og sönnuðu þau ótvírætt gildi sitt á liðnu ári. Straumleysi á Vestfjörðum vegna truflana á öllum línum, að undanskilinni Tálknafjarðarlínu 1 frá Mjólká að Suðurfirði, hefur styst verulega eins og glögglega sést þegar straumleysi forgangsnotenda á svæðinu árið 2015 er skoðað. Á móti hefur keyrsla varaafls aukist sem og straumleysi notenda á ótryggum flutningi en þeir eru 52% heildarnotenda raforku á Vestfjörðum.

Snjallnetið er innbyggt í varnarbúnað stöðva Landsnets á Vestfjörðum og styttir það tímann, sem það tekur að ræsa varaafl og slá aftur inn forgangsnotendum, úr um hálfri klukkustund að jafnaði í eina og hálfa mínútu. Skerðing vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana árið 2015 til forgangsnotenda á Vestfjörðum mælist 64,5 straumleysismínútur. Ef snjallnetsins hefði ekki notið við hefði skerðingin verið nærri tvöfalt meiri, eða um 117 mínútur.

Skerðingar til notenda á ótryggum flutningi eru ekki taldar með hér.

Snjallnetið hefur bætt verulega afhendingaröryggi forgangsnotenda á Vestfjörðum þó svo tilkoma varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík hafi haft enn meira að segja. Ef hennar nyti ekki við væri straumleysi hjá forgangsnotendum talið í klukkustundum. Hún dró úr straumleysi sem nemur um 3.253 mínútum árið 2015 á meðan keyrsla annarra varaaflsstöðva á Vestfjörðum kom í veg fyrir um 1.022 mínútna straumleysi. Hér er afhending til notenda á ótryggum flutningi ótalin en árið 2015 nam skerðing til notenda á ótryggum flutningi alls 13.577 MWst vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana. Ef straumleysi þeirra væri bætt við straumleysi forgangsnotenda í landshlutanum fjölgar straumleysismínútunum um 8.794 mínútur, eða alls 147 klukkustundir.

Tvær fyrirvaralausar rekstrartruflanir – fyrir og eftir tilkomu snjallnets og varaaflsstöðvar

Tilkoma varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík og snjallnetsins hafa dregið umtalsvert úr straumleysi hjá forgangsnotendum vestra frá því sem áður var, eins og sést á meðfylgjandi súluriti sem sýnir samanburð á skerðingu forgangsálags á Vestfjörðum vegna truflunar á Mjólkárlínu 1 fyrir og eftir að varaaflstöðin og snjallnetið voru tekin í gagnið. Ekki er tekin með í þessum samanburði skerðing til notenda á ótryggum flutningi.

  • Mjólkárlína 1 sló út þann 12. febrúar 2014 vegna ísingar og varð straumlaust á öllum Vestfjörðum. Skerðing á raforkuafhendingu til forgangsnotenda, þar til varaaflskeyrsla hófst, var metin um 25 MWst. Notendur með skerðanlega samninga voru skertir allan tímann sem línan var úti.
  • Mjólkárlína 1 sló út þann 11. mars 2015 í óveðri sem gekk yfir landið. Straumlaust varð í skamma stund á norðanverðum Vestfjörðum áður en snjallnetið tók við og sendi ræsimerki á varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík ásamt því að skerða alla notendur á ótryggum flutningi á Vestfjörðum. Jafnframt leysti snjallnetið út Breiðadalslínu 1 svo Mjólkárvirkjun gæti séð suðurfjörðunum fyrir forgangsálagi. Þakka má hraðvirkni snjallnetsstýringanna að skerðingar til forgangsnotenda voru aðeins 0,36 MWst en notendur á ótryggum flutningi voru skertir allan tímann sem línan var úti.