Áhættustýring

Landsnet hefur að leiðarljósi að sinna lögbundinni skyldu sinni þannig að öryggi starfsfólks, viðskiptavina og búnaðar fyfirtæksins sé tryggt, fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé traust og það sinni grunnhlutverki sínu í sem mestri sátt við umhverfið og samfélagið.

Markmið áhættustýringar er annars vegar að auka líkur á því að ná árangri og hins vegar að draga úr líkum á áföllum og óvissu um að markmið náist.

Áhættunálgun Landsnets stjórnast ekki síst af því að félagið sinnir nauðsynlegri grunnþjónustu í samfélaginu. Þar af leiðandi tekur það litla eða hófsama áhættu og því er bæði áhættuvilji (e. risk appetite) og áhættuþol (e. risk tolerance) fyrirtækisins lágt.

Áhættumat

Árlega er unnið áhættumat fyrir starfsemi Landsnets. Sérstök áhættunefnd leiðir þá vinnu sem hefur þróast mikið á árinu og farið í gegnum mikið umbótaferli. Með áhættumatinu eru skilgreindir þeir áhættuþættir sem geta komið upp í stafsemi félagsins, könnuð möguleg áhrif þeirra á starfsemina og mótvægisaðgerðir skipulagðar til að koma í veg fyrir eða lágmarka áhrif þessara áhættuþátta.

Undir áhættumat Landsnets fellur m.a. mat á rekstraráhættu, mótaðilaáhættu og fjárhagslegri áhættu.

  • Rekstraráhætta er skilgreind sem hætta á neikvæðum áhrifum á afkomu fyrirtækisins. Hún lýtur m.a. að atriðum er varða framleiðslu inn á kerfið, flutningskerfið sem slíkt, upplýsinga- og eftirlitskerfi, stjórnun, lagaumhverfi, samninga og fleira.
  • Mótaðilaáhætta er áhætta sem felst í því að gagnaðili fjármálasamnings eða annarra viðskiptasamninga, sem félagið gerir, uppfylli ekki ákvæði hans.
  • Fjárhagsleg áhætta lýtur fyrst og fremst að fjárhagslegum málum í starfsemi fyrirtækisins, þ.e. áhættu á fjárhagslegu tapi á liðum innan og utan efnahagsreiknings, m.a. vegna breytinga á markaðsvirði þessara liða. Þar á meðal eru breytingar á vöxtum, gengi gjaldmiðla og verðbólgu. Skilgreind fjárhagsleg áhætta Landsnets er markaðs-, lausafjár-, gengis- og verðbólguáhætta.