Innkaup og birgðahald

Áhersla var lögð á að rafvæða útboðsferli Landsnets á árinu 2015 og í lok október var tekið upp nýtt rafrænt útboðskerfi, Delta eSourcing. Þar með er útboðsferli fyrirtækisins orðið að fullu rafrænt og tekið rafrænt við tilboðum í kerfinu. Þá eru öll opin útboð Landsnets nú auglýst á sérstökum útboðsvef.

Aukinn framkvæmdaþungi Landsnets kom fram í innkaupum árið 2015 og voru útboð ársins alls 27 samanborið við 3 útboð árið 2014. Framkvæmdaþungans varð einnig vart í birgðahaldi félagsins á fyrri hluta ársins. Fólst það m.a. í að útvega sérhæfðan búnað fyrir jarðstrengslagnir fyrirtækisins og efnisöflun vegna endurbyggingar Sigöldulínu 3. Þá var seinni hluti ársins einnig annasamur vegna móttöku á vara- og afgangsefni eftir framkvæmdir sumarsins.