Tekjumörk og gjaldskrár

Landsnet starfar á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003. Samkvæmt 12 gr. laganna skal Orkustofnun setja fyrirtækinu tekjumörk og skal það ákveða gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við þau. Tekjumörkin taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum fastafjármuna, leyfðri arðsemi sem Orkustofnun ákveður árlega, og sköttum. Arðsemisþátturinn vegur þungt í ákvörðun tekjumarka og er mikilvægt að ákvörðun tekjumarka og arðsemi fyrir fyrirtækiðð sé í föstum farvegi og skapi þannig það jafnvægi sem mikilvægt er að ríki gagnvart gjaldtöku fyrir flutning raforku.

Á árinu 2015 birti Orkustofnun ákvörðun um leyfða arðsemi fyrir árin 2011 − 2015 og í framhaldi af því var gengið frá uppgjöri tekjumarka fyrir árin 2011 − 2014. Þannig lauk að mestu þeirri óvissu sem verið hefur í nokkuð mörg ár varðandi tekjumörk Landsnets fyrir árin 2011 − 2015.

Vegna ágreinings, sem verið hefur undanfarin ár um leyfða arðsemi til handa aðilum í sérleyfisstarfsemi á raforkumarkaði, ákvað atvinnuvega- og nýsköpunarráðneytið að endurskoða reglugerð um mat á vegnum fjármagnskostnaði. Þeirri endurskoðun er lokið og þar með er kominn grunnur að setningu tekjumarka fyrir tekjumarkatímabilið 2016 − 2020.

Flutningsgjaldskrá stórnotenda í takt við verðlagsþróun

Í lok árs 2015, sem er síðasta ár tekjumarkatímabils, er gjaldskrá stórnotenda í takt við verðlagsþróun á tímabilinu og hefur hækkað um 8% frá upphafi tímabilsins, eða frá byrjun árs 2011. Gjaldskráin hefur tekið breytingum í takt við ákvarðanir um arðsemi innan þess ramma sem gildir um stórnotendur og endurgreiðslu á eldri skuld.

Miklar sveiflur í flutningsgjaldskrám eru óæskilegar og því er mikilvægt að skapa stöðugleika varðandi forsendur sem liggja þar til grundvallar. Ákvörðun um arðsemi, sett tekjumörk samkvæmt ákvæðum laga og stöðugur grunnur tekjumarka er sá grundvöllur.

Meðfylgjandi línurit sýnir þróun gjaldskrár Landsnets frá lagabreytingunni árið 2011 í samanburði við þróun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum (CPI) enda skal verðlag eignastofnsins fylgja þeirri vísitölu. Með þessum samanburði má gera sér grein fyrir kaupmáttarþróun gjaldskrárinnar í Bandaríkjadölum. Engar breytingar voru gerðar á flutningsgjaldskrá til stórnotenda á árinu 2015.


Óbreytt flutningsgjaldskrá fyrir dreifiveitur

Flutningsgjaldskrá fyrir dreifiveitur var óbreytt á árinu 2015. Gjaldskráin hækkaði síðast þann 1. júlí 2013 og hafði þá ekki tekið breytingum frá árinu 2009.

Á línuritinu sést hvernig gjaldskrá til dreifiveitna hefur þróast frá árinu 2011 í samanburði við vísitölu neysluverðs annars vegar og launavísitölu hins vegar. Eignastofn dreifiveitna skal fylgja verðlagi neysluverðs en hann vegur þyngst við gjaldskrárákvarðanir. Línuritið sýnir að hækkun gjaldskrárinnar hefur ekki náð að fylgja verðlagsþróun allt tímabilið. Jafnframt sést að kaupmáttur launa hefur hækkað verulega umfram verðlag á flutningsþætti raforku til heimila á þessu tímabili.

Hækkun á gjaldskrá vegna kerfisstjórnar

Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem Landsnet veitir til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverjum tíma. Þar innifalið er reiðuafl vegna tíðnistýringa og truflana, varaafl og varalaunafl. Einnig þarf Landsnet að afla reglunaraflstryggingar til að reka markað fyrir jöfnunarorku. Til að sinna þessum lögboðnu skyldum aflar fyrirtækið aðfanga, einkum frá vinnslufyrirtækjum, og aðgangs að varaafli hjá dreifiveitunum.

Landsnet hefur lagt áherslu á að auka fjölbreytni tilboða á reglunaraflsmarkaði. Haldið var áfram tilraunum með símatilboð og aðrar sérlausnir með það að markmiði að auka samkeppni og fjölga birgjum. Á árinu var samningur um reglunaraflstryggingu endurskoðaður sem hafði verið í gildi í rúman áratug, eða allt frá stofnun Landsnets. Endurskoðunin leiddi til 12,5% hækkunar á gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu frá 1. ágúst en í byrjun febrúar hafði gjaldskráin hins vegar lækkað um 4,2%. Með langtímasamningum við framleiðendur var tryggt að 100 MW reiðuafl væri fyrir hendi árið 2015. Hluti þessara langtímasamninga, eða 40 MW af 100 MW, runnu út í árslok 2015.

Útboð fyrir tímabilið maí 2015 til maí 2016 fór fram á árinu og bárust tilboð frá tveimur aðilum. Samkvæmt því fór meðalverð á tryggða MWst í 393 krónur á árinu, sem er 31% meðaltalshækkun á MWst milli samninga. Jafnframt hækkaði verð fyrir uppreglun um 51%.

Vaxandi kostnaður vegna orkutaps í flutningskerfinu

Samkvæmt raforkulögum ber Landsneti að útvega rafmagn í stað þess sem tapast í flutningskerfinu. Fyrirkomulag þessara innkaupa hefur verið með þeim hætti að framleiðendur raforku hafa gert félaginu tilboð um orkukaup á grundvelli undangengins útboðs og á grundvelli þess hafa verið gerðir samningar um orkukaup í þessu skyni til eins árs. Hefur kostnaður vegna flutningstaps farið vaxandi á liðnum árum, annars vegar vegna aukins flutningstaps samhliða aukinni innmötun og hins vegar vegna hækkunar á meðalverði á grundvelli útboða.

Þannig hækkaði meðalverð raforku, sem Landsnet keypti til að mæta flutningstapi í kerfinu, um 25% milli ára á grundvelli útboðs haustið 2014. Útboð haustið 2015, til að mæta flutningstapi árisins 2016, leiddi til enn frekari hækkana (fór úr 3.799 kr/MWst í 4.447 kr/MWst), eða sem nemur 17% meðaltalshækkun milli ára á innkaupsverði raforku vegna flutningstaps.

Gjaldskrá Landsnets vegna flutningstaps er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og birt í íslenskum krónum. Innkaupin eru háð eftirliti Orkustofnunar. Þannig er tryggt að gjaldskráin taki mið af innkaupsverð auk 1,5% álags til að mæta kostnaði við umsýslu.

Orðskýringar

Reiðuafl er varaafl sem er tengt raforkukerfinu og tiltækt án fyrirvara.

Varaafl á við aflgetu tiltækrar vinnslueiningar sem ekki er tengd við raforkukerfið en hægt er að ræsa eða tengja við það og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka.

Varalaunafl er launafl sem ræst er, annaðhvort sjálfvirkt eða handvirkt meðan á skammvinnu rekstrarástandi stendur.

Reglunarafl er það afl sem Landsnet útvegar til að jafna frávik milli áætlaðrar aflnotkunar og raunverulegrar aflnotkunar í raforkukerfinu í heild.

Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.

Reglunaraflstrygging tryggir lágmarksframboð á reglunaraflsmarkaði.

Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, það er það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.