Upprunaábyrgðir raforku

Landsnet hefur gefið út upprunaábyrgðir raforku, svokölluð græn skírteini, frá árinu 2012. Með slíkri ábyrgð er staðfest að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, til að mynda  vatnsorku eða jarðvarma.

Landsnet gaf út rúmlega sex milljónir upprunaábyrgða árið 2015 sem er nokkur lækkun frá árinu áður. Þá voru útgefnar upprunaábyrgðir, 10 milljón talsins, og má einkum rekja samdráttinn til verðlækkunar á mörkuðum með upprunaábyrgðir.

Landsnet tekur virkan þátt í starfi Evrópusamtaka útgefenda uppruna ábyrgða, AIB. Árið 2015 framkvæmdi AIB viðamikla úttekt á vinnuferlum Landsnets og fyrirkomulagi við útgáfu upprunaábyrgða. Niðurstöður hennar voru kynntar á aðalfundi AIB haustið 2015 og samþykktar án athugasemda.

Nokkur umræða skapaðist á árinu um eðli og umfang upprunaábyrgða á Íslandi. Landsnet fagnar þeirri umræðu og bendir á að umræddu fyrirkomulagi var m.a. komið á til að auka markaðsvirði og samkeppnishæfni raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Samkvæmt reglum um upprunaábyrgðir sem tóku gildi hér á landi árið 2012, fylgja upprunaábyrgðir ekki með sölu raforkunnar. Þær er því hægt að selja óháð sölu raforkunnar. Þannig hafa allir notendur raforku jafnan aðgang að endurnýjanlegum orkugjöfum, óháð staðsetningu í raforkukerfi Evrópu. Framleiðendur hér á landi geta annaðhvort afskráð upprunaábyrgðir sem eru afhentar notendum á Íslandi eða selt þær til kaupenda á Evrópska efnahagssvæðinu.