Jarðstrengsrannsóknir

Töluverð umræða hefur verið á undanförnum árum um að leggja raflínur í auknum mæli í jörð en elstu jarðstrengir í flutningskerfi Landsnets eru frá sjötta áratug síðustu aldar. Framan af var notkun jarðstrengja, bæði hérlendis og erlendis, að mestu bundin dreifingu á lægri spennu á þéttbýlum svæðum. Með stórstígum tækniframförum og hagstæðara verðlagi hefur notkun jarðstrengja farið vaxandi, flest framkvæmdaverkefni Landsnets síðustu árin hafa verið jarðstrengsverkefni og gert er ráð fyrir að jarðstrengsframkvæmdir í flutningskerfinu aukist enn frekar á komandi árum.

Til að átta sig betur á kostnaði, umhverfisáhrifum og notkun jarðstrengja á hærri spennu efndi Landsnet til viðamikils rannsóknarverkefnis í samstarfi við danska flutningsfyrirtækið Energinet.dk, ráðgjafarfyrirtækið StellaCable í Danmörku, Háskólann í Reykjavík og innlendar verkfræðistofur.

Skýrsla hópsins var kynnt í febrúar 2015 og vakti sú niðurstaða hennar hvað mesta athygli að jarðstrengur yfir Sprengisand gæti að hámarki verið 50 km langur. Það er vegna tæknilegra takmarkana af völdum mismunandi styrkleika kerfisins eftir landshlutum en meðal þess sem hefur áhrif á lengd jarðstrengja er lágt skammhlaupsafl eða styrkur kerfisins. Þá staðfestir rannsóknin að verð jarðstrengja með mikla flutningsgetu hefur lækkað umtalsvert, eða um allt að helming fyrir 220 kV strengi og að innkaupsverð er um 30-50% af heildarkostnaði við 220 kV jarðstrengslögn en erfitt sé að setja fram almennt viðmiðunarverð. Skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig út frá fyrirliggjandi aðstæðum.

Skýrslan staðfestir einnig að varmaleiðni jarðvegs á Íslandi er almennt minni en í nágrannalöndum, að hagkvæmasta lagningaraðferð jarðstrengja er í langflestum tilvikum í opinn skurð og að mikilvægt sé að lágmarka umhverfisáhrif við leiðaval jarðstrengja. Þannig sé auðvelt að endurheimta fyrra yfirborð eftir lagningu strengs í sanda, vel gróið mólendi eða ræktarland en í skóglendi verði að skilja eftir skólaust belti yfir streng. Þá sé ástæða til að forðast strenglagnir í hrauni eins og kostur sé, ekki sé hægt að koma yfirborði í fyrra horf, auk þess sem lög um náttúruvernd gildi um nútímahraun.