Nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni

Fjárfestingar í nýframkvæmdum í flutningskerfi Landsnets námu um 3,7 milljörðum króna árið 2015 og er það sambærilegur fjárfestingarkostnaður og árið áður. Meginþorri verkefnanna var vegna endurnýjunar og styrkingar flutningskerfisins en nokkur voru vegna tenginga notenda.

Stærstu einstöku verkefni ársins tengdust lagningu jarðstrengja en viðhaldsverkefni á vegum fyrirtækisins tóku einnig drjúgan tíma. Þá voru umfangsmiklar nýframkvæmdir í undirbúningi á árinu og útlit fyrir að fjárfesting í nýframkvæmdum árið 2016 verði allt að þreföld miðað við árið 2015, eða um 11 milljarðar króna.

Lagning jarðstrengs milli Fitja og Helguvíkur – Landsnet hf. from Landsnet on Vimeo.

Tenging United Silicon

Landsnet vann árið 2015 að byggingu flutningsmannvirkja vegna tengingar kísilvers United Silicon sem nú rís í Helguvík. Nýr rofi var settur upp í tengivirkinu Fitjum, lagður 9 km langur 132 kV jarðstrengur milli Fitja og Helguvíkur og byggt nýtt tengivirki við Helguvík sem nefnt hefur verið Stakkur. Framkvæmdum Landsnets lauk í ársbyrjun 2016.

Tengivirki Akranesi

Í samstarfi við Veitur vann Landsnet að framkvæmdum við nýtt tengivirki á Akranesi árið 2015 og lýkur þeim fyrri hluta árs 2016. Nýja virkið er á iðnaðarsvæði vestan til í bænum og leysir af hólmi tengivirki sem var bæði orðið gamalt og staðsett á svæði í bænum sem hefur verið skipulagt sem íbúðasvæði.

Selfosslína 3

Lagning nýrrar 28 km langrar 66 kV jarðstrengstengingar milli Selfoss og Þorlákshafnar hófst árið 2015 og lýkur fyrri hluta árs 2016. Jafnframt var unnið að breytingum á tengivirkjunum í Þorlákshöfn og á Selfossi. Með tilkomu Selfosslínu 3 mun afhendingaröryggi raforku aukast í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi.

Hellulína 2

Sumarið 2015 var nýr 66 kV 13 km langur jarðstrengur lagður milli Hellu og Hvolsvallar. Strengurinn var tekinn í rekstur í september og í framhaldinu var loftlínan rifin en hún var með elstu línum í flutningskerfinu, reist árið 1948.

Hellulína 2 tekin niður – Landsnet hf. from Landsnet on Vimeo.

Breytingar á tengivirki í Sigöldu

Á árinu var lokið við breytingar á tengivirkinu í Sigöldu í þeim tilgangi að auka flutningsgetu um byggðalínuna. Með nýjum viðbótarrofa og breytingum á háspennutengingum er nú hægt að skipta upp tengivirkinu í rekstri  og bregðast þannig við truflunum án þess að það leiði til skerðinga eða truflana hjá viðskiptavinum. Endurbæturnar á tengivirkinu í Sigöldu eru fyrst og fremst tímabundin ráðstöfun til að bregðast við rekstrarerfiðleikum sem fylgja því að byggðalínan er rekin yfir stöðugleikamörkum stóran hluta ársins.

Flutningsgeta Sigöldulínu 3 tvöfölduð

Á haustmánuðum lauk framkvæmdum við styrkingu Sigöldulínu 3, 37 km langrar 220 kV háspennulínu milli Sigöldu og Búrfells, sem reist var árið 1975 í tengslum við byggingu Sigölduvirkjunar. Skipt var út leiðurum, einangrarakeðjum og ný möstur reist næst Sigöldustöð. Með þessum aðgerðum tvöfaldaðist flutningsgeta línunnar en kostnaður við endurbæturnar nam hins vegar aðeins um þriðjungi þess sem bygging nýrrar línu hefði kostað.

Endurnýjun Sigöldulínu 3 – Landsnet hf. from Landsnet on Vimeo.

Framkvæmdir á Snæfellsnesi

Jarðvinnuframkvæmdir vegna byggingar nýs tengivirkis á Grundarfirði hófust síðari hluta ársins 2015 og er áætlað að framkvæmdum ljúki í ársbyrjun 2017. Þörf er á stækkun tengivirkisins vegna fyrirhugaðrar lagningar nýs 66 kV jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur árið 2017. Þar sem byggð hefur vaxið að tengivirkinu var stækkun þess á núverandi stað ekki talinn fýsilegur kostur og ákveðið að byggja nýtt. Jafnframt er unnið að undirbúningi nýs tengivirkis í Ólafsvík.

Kaup á varaspenni

Á árinu var gengið frá kaupum á varaspenni (132/66/32 kV) sem getur komið í stað byggðalínuspenna og fleiri spenna í flutningskerfi Landsnets. Á ýmsum stöðum á landinu er afhending til viðskiptavina háð flutningi um einn spenni. Mikið öryggi er að hafa varaspenni tiltækan þar sem viðgerð vegna bilunar í spenni getur tekið langan tíma. Varaspennirinn er væntanlegur til landsins í ársbyrjun 2016.

Styrking Hrauneyjafosslínu 1

Hrauneyjafosslína 1 var styrkt á árinu með breytingu á nokkrum möstrum og útskiptum á einangrarakeðjum. Styrking línunnar og aukin flutningsgeta hennar á kafla frá Langöldu að Sultartanga var aðkallandi í kjölfar þess að Búðarhálslína 1 var tengd inn á Hrauneyjafosslínu 1 við Langöldu.

Styrking strengenda

Í flutningskerfinu eru nokkrir flöskuhálsar þar sem stuttir jarðstrengir frá tengivirki að fyrsta mastri í loftlínu hafa talsvert minni flutningsgetu en loftlínan sem þeir tengjast. Áformað er að skipta þessum strengjum út fyrir flutningsgetumeiri strengi. Unnið var að hönnun og undirbúningi árið 2015 og fest hafa verið kaup á strengjunum og þeir komnir til landsins. Hófust framkvæmdir við fyrsta verkáfangann, lagningu nýrra strengja við tengivirki á Eskifirði, í árslok 2015 og aðrir verkáfangar fylgja í kjölfarið árið 2016.

Sandskeiðslína 1 og breytingar í Hafnarfirði

Sumarið 2015 náðist samkomulag við Hafnarfjarðarbæ og íbúa á Völlunum í Hafnarfirði um breytingar á hluta raforkuflutningskerfis Landsnets innan bæjarfélagsins. Miðar samkomulagið að því að hægt verði að rífa Hamraneslínur 1 og 2 og færa fjær byggðinni Ísallínur 1 og 2 sem liggja frá tengivirkinu í Hamranesi að álverinu í Straumsvík. Þá er gert ráð fyrir að Suðurnesjalína 2 tengist Hamranesi með 1,5 km löngum 220 kV jarðstreng frá Hraunhellu. Jafnframt var ákveðið að ráðast í aðgerðir til að bæta hljóðvist tengivirkisins í Hamranesi, m.a. með því að byggja utan um spenna með hljóðdempandi efnum og hækka hljóðmön. Þær framkvæmdir hófust síðla árs og lýkur fyrri hluta árs 2016. Áætlað er að framkvæmdum, sem felast í samkomulaginu, ljúki fyrir árslok 2018, að því gefnu að tilskilin leyfi fáist í tæka tíð. Þær munu bæta ásýnd tengivirkisins í Hamranesi til muna frá því sem nú er.

Bygging Sandskeiðslínu 1, frá tengivirki á Sandskeiði að Hraunhellu, er forsenda þess að hægt verði að rífa Hamraneslínurnar og gera aðrar breytingar á flutningskerfinu í Hafnarfirði samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi. Undirbúningur hennar og bygging tengivirkis á Sandskeiði er þegar hafinn hjá Landsneti.

Suðurnesjalína 2

Um árabil hefur Landsnet unnið að undirbúningi Suðurnesjalínu 2, 220 kV háspennulínu sem mun liggja frá Hafnarfirði út á Reykjanes og auka afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Línuleiðin er rúmir 32 kílómetrar og framkvæmdaleyfi fékkst á árinu frá sveitarfélögunum fjórum sem línan fer um. Undirbúningsframkvæmdir voru boðnar út haustið 2015, vinna við slóðagerð og undirstöður á að hefjast vorið 2016 og áformað er að reisa línuna árið 2017.

Krafla, Þeistareykir og Bakki

Landsnet áformar umfangsmiklar framkvæmdir á Norðausturlandi vegna tengingar Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík annars vegar og hins vegar tengingu virkjunarinnar við flutningskerfi Landsnets. Verkefnið felst í byggingu tveggja 220 kV háspennulína, Kröflulínu 4, sem er um 33 km löng lína frá Kröflu að Þeistareykjum, og Þeistareykjalínu 1 sem er um 29 km löng lína frá Þeistareykjum að Bakka.

Einnig verða byggð þrjú ný 220 kV tengivirki. Í Kröflu verður byggt nýtt fjögurra rofa tengivirki og tenging við eldra virki, á Þeistareykjum verður byggt nýtt fimm rofa tengivirki og á Bakka verður reist nýtt þriggja rofa virki. Unnið var að hönnun og undirbúningi verkefnisins á árinu, stærstu verkhlutarnir verða boðnir út fyrri hluta árs 2016 og verklok eru fyrirhuguð 2017.

Bakki og Þeistareykir – tenging við flutningskerfið – Landsnet hf. from Landsnet on Vimeo.

Spennuhækkun í Vestmannaeyjum

Framkvæmdir vegna spennuhækkunar Vestmannastrengs 3 voru undirbúnar á árinu. Byggja þarf nýtt 66 kV tengivirki í Vestmannaeyjum og breyta tengivirkinu í Rimakoti sem tengir Eyjar við meginflutningskerfið. Samið hefur verið við verktaka, að undangegnum útboðum, og hefjast framkvæmdir í ársbyrjun 2016 og lýkur í árslok. Framkvæmdin er samstarfsverkefni Landsnets og HS Veitna en með spennuhækkun strengsins til Eyja verður hægt að tvöfalda flutningsgetu hans.

Styrking tengivirkisins í Mjólká

Áformað er að styrkja flutningskerfið á Vestfjörðum með því að bæta við einum 132/66 kV spenni við tengivirkið í Mjólká. Núverandi spennir þar er fulllestaður og flöskuháls í flutningi til Vestfjarða. Á árinu var unnið að undirbúningi og samið um kaup á nýjum spenni. Hann verður afhentur í október árið 2016 og settur upp vestra í kjölfarið og spennusettur.

Ídráttarrör í Norðfjarðargöngum

Í tengslum við lagningu jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar ákvað Landsnet að búa í haginn fyrir framtíðina og koma fyrir ídráttarrörum fyrir jarðstrengi í göngunum. Unnið var að undirbúningi árið 2015 og hefst lagning röranna fyrri hluta árs 2016 en ráðgert er að göngin verði opnuð fyrir umferð síðla árs 2017.

Viðhalds- og viðgerðarverkefni

Netþjónusta Landsnets, áður netrekstur, sinnti um 600 misjafnlega stórum og víðfeðmum verkefnum á liðnu ári. Meðal stærstu áfallanna má nefna skemmdir á stæðum í Hvolsvallarlínu 1 í eldingaveðri í janúar, áfok á Suðurnesjalínu 1 í óveðri í febrúar, skemmdir á möstrum og línum á Vestfjörðum og Vesturlandi í mars og apríl, bilun í spenni í Rimakoti, sem sér Vestmannaeyjum fyrir rafmagni, í ágúst og skemmdir á Rangárvallalínu 1 í Skagafirði í desember. Önnur verkefrni  lutu að eftirliti með tengivirkjum og viðhaldi á rafbúnaði tengivirkja, vinnu við nýframkvæmdir, vinnu við rofastjórn og háspennustrengi og skoðunum og viðhaldi á háspennulínum. Þar má nefna uppskiptingu teina í tengivirkinu í Sigöldu, viðhald spenna í tengivirkinu á Brennimel, breytingu á Prestbakkalínu 1 við Gígjukvísl, endurnýjun upphengibúnaðar og einangraraskála  Geiradalslínu 1, endurnýjun leiðara Mjólkárlínu 1 yfir Þorskafjörð, leiðaraskipti á Ólafsvíkurlínu 1 í Bláfeldarhrauni, breytingu á tengibugtum í Fljótsdalslínu 4 og millitengingu fyrir Fljótsdalslínur 3 og 4, svo fátt eitt sé nefnt.