Alþjóðleg samstarfsverkefni

Landsnet tekur þátt í ýmsum alþjóðlegum samstarfsverkefnum en þau stærstu eru tvö evrópsk rannsóknarverkefni sem hlotið hafa styrk úr rammaáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun. Um er að ræða verkefni á sviði áreiðanleikagreiningar raforkukerfa og stýringa sem til framtíðar tryggja afhendingaröryggi og stöðugleika flutningskerfa í Evrópu.

Bæði verkefnin styðja við markmið Evrópusambandsins um öryggi, sjálfbærni og hagkvæmni á sviði orkumála. Þau falla undir samfélagsáskoranir og því er lögð áhersla á að koma niðurstöðum rannsókna á markað með því að styðja við tilraunaverkefni og markaðssetningu nýsköpunar, allt til að auka samkeppnishæfni Evrópu.

migrate_logo_email_signatureÁ árinu 2015 var lokahönd lögð á umsókn um styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun Evrópusambandsins vegna rannsóknarverkefnisins MIGRATE (Massive Integration of Power Electronic Devices) sem Landsnet er aðili að. Samþykki fyrir styrkbeiðninni fékkst í ágúst og hefst verkefnið, sem er til fjögurra ára, í janúar 2016. Þátttakendur eru alls 25 talsins frá 13 löndum, þar af 11 flutningsfyrirtæki í Evrópu ásamt Landsneti. Verkefnið skapar um 150 ársverk en heildarkostnaður við það er áætlaður um 18 milljónir evra.

Meginmarkmið MIGRATE verkefnisins er að rannsaka leiðir til að auka stöðugleika raforkukerfa sem búa við síminnkandi tregðuvægi vegna aukinnar notkunar endurnýjanlegra orkugjafa, s.s. vind- og sólarorku og æ fleiri háspenntra jafnstraumstenginga (HVDC) milli kerfa. Þessi þróun ásamt áformum, sem eru víða uppi, um að leggja niður hefðbundin kola-, gas- og kjarnorkuver, sem í dag standa fyrir mikið tregðuvægi í kerfinu, hefur skapað óvissu um hvernig tryggja megi stöðugleika raforkukerfa til framtíðar.

Ísland þykir kjörinn rannsóknarvettvangur því raforkukerfið hér er nú þegar með mjög lágt tregðuvægi, samanborið við samtengd kerfi annarra Evrópulanda, og við glímum við stöðugleikavandamál við ýmsar rekstraraðstæður sökum smæðar kerfisins og afar veikra tenginga milli landsvæða. Hér á landi er einnig búið að byggja upp mikilvæga innviði sem nýtast vel í verkefninu til að skilja betur hegðun kerfisins en Landsnet hefur á síðustu árum þróað víðmælikerfi sem horft er til og mun nýtast við uppsetningu prófana hérlendis.

Íslenska raforkukerfið er því mjög áhugavert fyrir MIGRATE verkefnið þó það sé ekki hluti af hinu samtengda evrópska raforkukerfi. Annars vegar vegna eiginleika kerfisins og hins vegar vegna þess hversu framarlega Landsnet stendur varðandi mælingar og rauntímagreiningu á stöðu kerfisins hverju sinni.

logo-GARPURAnnað evrópskt rannsóknarverkefni, sem Landsnet tekur þátt í, ásamt Háskólanum í Reykjavík og 17 örðum evrópskum háskólum, rannsóknarstofnunum og raforkuflutningsfyrirtækjum í Evrópu, er GARPUR (Generally Accepted Reliability Principle with Uncertainty modelling and through probabilistic Risk assessment). Vinna við verkefnið er langt komin en það er til fjögurra ára og fékk 1,2 milljarða króna styrk úr 7. Rammaáætlun rannsóknaráætlun ESB árið 2013.

Meginmarkmið verkefnisins er að bylta gildandi aðferðafræði við áreiðanleikaútreikninga raforkuflutningskerfa og þróa ný og hagkvæmari viðmið svo evrópsk flutningsfyrirtæki verði betur í stakk búin til að takast á við þær miklu breytingar sem eiga sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og vinna að frekari þróun þeirra.

Sífellt verður erfiðara að spá fyrir um raforkueftirspurn og framboð, m.a. vegna stóraukinnar samþættingar dreifikerfa á evrópska raforkumarkaðnum og vaxandi notkunar á endurnýjanlegum orkuauðlindum, s.s. vinorku og fleiri valkostum. Þá hefur hæg uppbygging raforkukerfa leitt til þess að kerfin eru í auknum mæli rekin nálægt þolmörkum. Á sama tíma hafa tækniframfarir, m.a. í upplýsingatækni, mælitækni og rafeindatækni, skapað nýja möguleika til að meta áreiðanleika flutningskerfa raforku og auðvelda nákvæmari stjórnun þeirra frá því sem áður var.

Síðari hluti verkefnis, þar sem áhersla er lögð á prófanir á nýrri aðferðafræði með þátttöku flutningsfyrirtækja í Evrópu, er nú hafinn og stýrir Landsnet þeirri vinnu. Árið 2015 var lögð vinna í að skilgreina prófanir við hæfi og þátttöku í þeim. Landsnet leggur áherslu á að prófanir séu sem næst rauntímastýringu kerfisins og er þar um mjög krefjandi umhverfi að ræða því eiga þarf við mikið magn gagna með sjálfvirkum hætti.

Á heimasíðu verkefnisins má fylgjast með þróun nýrrar aðferðafræði og útgefnu efni í tengslum við framvinduna í formi skýrslna, kynninga og birtra greina.

promaps_logoLandsnet hefur undanfarið ár verið í samstarfi við norska flutningsfyrirtækið Statnett og hugbúnaðarframleiðandann Goodteck um uppsetningu og prófun á áreiðanleikagreiningarforritinu Promaps.

Hugbúnaðurinn, sem er nátengdur rannsóknarverkefninu GARPUR, er nú kominn í rekstur í stjórnstöð Landsnets og þróun íslenska módelsins er í fullum gangi. Hugbúnaðurinn greinir áreiðanleika raforkukerfisins í rauntíma og áætlar straumleysismínútur í kerfinu öllu og innan landsvæða, miðað við stöðu kerfis hverju sinni og áreiðanleikastuðla eininga. Hann sýnir líka lista yfir þær einingar sem skv. líkindum hafa mest áhrif á niðurstöðuna, þ.e. hafa neikvæð áhrif á áreiðanleika afhendingar.