Breytt ásýnd mannvirkja

Landsnet hefur tekið virkan þátt í bæði norrænum og evrópskum samstarfsverkefnum um þróun háspennumastra og tengivirkja með það að markmiði að bæta ásýnd mannvirkjanna og draga úr sjónrænum áhrifum. Má þar m.a. nefna rannsóknar- og nýsköpunarhóp Evrópusamtaka flutningsfyrirtækja (ENTSO-E) og CIGRÉ (International council on large electric systems), jafnframt því sem norrænu flutningsfyrirtækin hafa starfað saman að þessum málum. Einnig hefur félagið leitað í smiðju íslenskra arkitekta og verkfræðinga í þessum efnum.

Frá ársbyrjun 2011 hafa Landsnet og norska flutningsfyrirtækið Statnett verið í samstarfi um þróun þriggja nýrra mastragerða í framhaldi af alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um háspennumöstur framtíðarinnar. Var markmiðið að búa til ný háspennumöstur sem meiri sátt gæti orðið um en þau sem nú eru notuð.

Smíði fyrsta prufumastursins, sem hannað er sérstaklega út frá íslenskum aðstæðum og með það að markmiði að það falli sem best að íslensku landslagi, lauk árið 2015. Það verður reist fyrri hluta árs 2016 í Hafnarfirði sem hluti af nýjum flutningslínum Landsnets frá Geithálsi til Hafnarfjarðar. Það hefur fengið vinnuheitið Ballerína sökum létts og leikandi yfirbragðs síns enda þykir það minna meira á trjástofn en hefðbundið háspennumastur. Það er frísandandi röramastur sem mjókkar í toppinn, mosagrænt neðst og ljósblátt efst og á að henta vel þar sem pláss er lítið og línugata þröng.

4330_fuglinn_tilb_cr

Fuglinn er önnur mastragerð úr alþjóðlegu samkeppninni sem er einnig komin í framleiðslu og væntanleg til landsins til uppsetningar árið 2016 . Það er stagað mastur með tveimur rörum og þverslá sem er eins og fuglsvængur að lögun og dregur það nafn sitt af því.

Þriðja mastragerðin úr samkeppninni, sem á að framleiða, er Risinn svokallaði, eða Land of Giants, sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Forhönnun risans er lokið og búið að leysa ýmis burðarfræðileg vandamál. Næst á dagskrá er að ljúka deilihönnun og velja mastrinu stað en hugmyndir eru uppi um að láta það standa sem skúlptúr þar sem línur fara yfir fjölfarinn veg.

Samhliða þessu hefur Statnett unnið að þróun nokkurra mastrategunda,m.a. úr áli og trefjum. Léttleiki þessara efna gæti dregið verulega úr kolefnisspori háspennumastra og fylgist Landsnet grannt með gangi mála.

HP_2016

Ný kynslóð tengivirkja

Mikil breyting hefur átt sér stað í hönnun og þróun tengivirkja Landsnets á undanförnum árum. Í kjölfar hönnunarsamkeppni fyrir nokkrum árum hefur ný kynslóð yfirbyggðra tengivirkja félagsins litið dagsins ljós með áherslu á betri ásýnd mannvirkjanna og kröfu um að þau falli betur að umhverfi sínu. Góð dæmi um þetta eru ný tengivirki í Helguvík og Bolungarvík sem og fyrirhuguð tengivirki á Bakka við Húsavík, Þeistareykjum og Kröflu.