Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri

Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður

Ávarp forstjóra og stjórnarformanns

Rekstur Landsnets gekk vel á árinu 2015 og nam hagnaður ársins fjórum milljörðum króna. Tekjur félagsins námu 16 milljörðum króna og var veltuaukning á milli ára um 13%. Flutningsgjaldskrá til dreifiveitna og stórnotenda var óbreytt á árinu. Orkuflutningur jókst um 3,6% á árinu. Tekjuaukning á milli ára skýrist að mestu leyti af hækkunar á gengi Bandaríkjadals (USD) þar sem meðalgengi hans hækkaði um 12,6%.

Sterk fjárhagsstaða

Heildareignir í árslok námu tæplega 103 milljörðum króna. Á árinu voru fastafjármunir fyrirtækisins endurmetnir en það var síðast gert árið 2008. Hefur reglulegt endurmat ekki verið framkvæmt fyrr vegna mikillar óvissu í arðsemi tekjumarka fyrirtækisins og þar með tekna. Niðurstöður endurmatsins, að teknu tilliti til reiknaðs tekjuskatts, nam 18.737 mkr. og færist á eigið fé. Það var 41.956 mkr. í árslok og eiginfjárhlutfall 41%.

Vaxtaberandi skuldir voru 47.863 mkr. í árslok, þar af um 90% fjármagnað í íslenskum krónum. Um 80% af vaxtaberandi langtímaskuldum fyrirtækisins er stofnlán frá móðurfélagi sem er afborgunarlaust til ársins 2020. Stór hluti lánasafnsins er án afborgana sem hefur áhrif á handbært fé félagsins. Samið var við móðurfélagið um að greitt yrði inn á lánið á árinu en í ljósi breytts starfrækslugjaldmiðils fyrirtækisins liggur fyrir að skuldir Landsnets verða endurfjármagnaðar á næstu árum. Þess er vænst að það leiði til hagstæðari vaxtakjara.

Árið 2015 er síðasta ár sem Landsnet birtir ársreikning sinn í íslenskum krónum en ársreikningaskrá hefur samþykkt að uppgjör Landsnets verði framvegis í Bandríkjadölum.

Fjárhagsstaða Landsnets er sterk og fyrirtækið hefur getu til þess að takast á við það mikilvæga verkefni næstu ára að styrkja flutningskerfið og greiða jafnframt eigendum sínum hóflegan arð. Stjórn leggur því til við aðalfund að greiddur verði út arður á árinu að fjárhæð 400 mkr., eða um 10% af hagnaði vegna rekstrarársins 2015.

Þörf á frekari styrkingu rekstrarumhverfis Landsnets

Breytingar á raforkulögum, sem samþykktar voru í febrúar 2011, höfðu meðal annars það að markmiði að styrkja rekstrarumhverfi Landsnets. Tekjumörk fyrirtækisins skyldu ákveðin til fimm ára og var fyrsta tímabilið, samkvæmt nýjum lögum, fyrir árin 2011 – 2015. Því miður náðu þessi markmið laganna ekki fram að ganga á tímabilinu. Ítrekaðar kærur hafa tafið fyrir að tekjumörk tímabilsins væru ákveðin og það var ekki fyrr en síðla árs 2015 sem tekjumörk fyrir árin 2011 – 2014 lágu loks fyrir.

Úr þessu hefur nú verið bætt með endurskoðun á reglugerð sem ráðuneytið hefur lagt fram um leyfða arðsemi og fjármagnskostnað Landsnets. Í framhaldinu hefur verið unnið að setningu tekjumarka fyrir tímabilið 2016 – 2020.

Ljóst er af reynslu af þeim lagaákvæðum sem snúa að tekjumörkum að frekari breytinga er þörf til að tryggja rekstrarumhverfi fyrirtækisins til framtíðar. Þarf þar meðal annars að taka tillit til þess að Landsnet er vaxandi fyrirtæki sem stöðugt auknar kröfur eru gerðar til.

Hvað þýðir Parísarsamkomulagið fyrir flutningskerfi Landsnets?

Raforkukerfið er einn af mikilvægustu innviðum samfélagsins, eins og vegakerfið, og þarf framtíðarþróun þess að taka mið af langtímasjónarmiðum og hagsmunum þjóðarinnar sem heildar.

Annmarkar kerfisins hafa víðtæk áhrif á samfélagið, þar á meðal verðmætasköpun, og draga úr verðmæti orkuauðlindarinnar. Því er oft haldið fram að áform Landsnets um styrkingu og uppbyggingu flutningskerfisins miðist við þarfir stóriðju þótt staðreyndin sé sú að þörfin á styrkingu meginflutningskerfisins nú er fyrst og fremst vegna aukinnar almennrar raforkunotkunar og krafna um meira afhendingaröryggi.

Parísarsamkomulagið, sem undirritað var í vetur, þar sem þjóðir heimsins settu sér það markmið að halda hlýnun jarðar vel innan við 2°C og stemma þannig stigu við ört vaxandi loftslagsbreytingum, hefur sett ný viðmið fyrir samfélagið. Raforka mun gegna lykilhlutverki ef markmið um hreina endurnýjanlega orkugjafa eiga að nást sem eykur enn frekar kröfurnar sem gera þarf til flutningskerfisins. Parísarsamkomulagið er því krefjandi áskorun fyrir Landsnet sem hefur í för með sér endurskoðun á gildandi viðmiðum.

Taka þarf ákvörðun um framtíð flutningskerfisins

Sjálfbærni raforkukerfisins verður ekki raungerð án sterks flutningskerfis sem byggir á lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum og eru ásættanlegar fyrir samfélagið.

Í kerfisáætlun Landsnets, sem lögð var fram í sumar, er horft til tveggja aðalvalkosta um uppbyggingu meginflutningskerfisins á næstu árum. Annars vegar lagningar háspennulínu yfir miðhálendið og hins vegar endurbyggingar núverandi byggðalínu. Unnið er að mati á umhverfisáhrifum fyrir hálendisleiðina og undirbúningur að gerð umhverfismats fyrir byggðaleiðina er hafinn.

Eðlilega eru skiptar skoðanir um þessa tvo valkosti kerfisáætlunarinnar. Brýnt er því að ljúka sem fyrst rannsóknum á kostum þeirra og göllum svo leiða megi til lykta þessa umræðu og taka upplýsta ákvörðun um hvernig staðið skuli að framtíðaruppbyggingu raforkuflutningskerfisins, bæði út frá þörfum samfélagsins og með tilliti til umhverfisins.

Breytt ásýnd mannvirkja hluti af sátt

Hluti af þeirri sátt, sem ríkja þarf um uppbyggingu raforkukerfisins, snýr að ásýnd og þróun nýrra raforkumannvirkja.

Landsnet leggur allt kapp á að fylgjast mjög náið með tækninýjungum og nýta þær eftir föngum í starfseminni þannig að flutningskerfið þjóni sem best hlutverki sínu.

Unnið hefur verið að þróun nýrra mastragerða fyrir háspennulínur og verða fyrstu prufumöstrin reist á þessu ári. Tengivirki Landsnets eru einnig að taka stakkaskipum. Ný virki rísa nú eitt af öðru, sérhönnuð með það að markmiði að þau falli sem best að umhverfinu. Þá er við val á línuleiðum lögð áhersla á að þær falli vel að umhverfinu svo sýnileiki þeirra verði sem minnstur. Þekkingaröflun á jarðstrengslagningum, út frá íslenskum aðstæðum, fleygir fram eftir því sem verkefnum fjölgar. Þá hefur frumkvöðlastarf fyrirtækisins í gerð hátæknistýrilausna fyrir raforkukerfið opnað því leið inn í umfangsmikil og áhugaverð samevrópsk rannsóknarverkefni.

Orkuviðskipti á markað

Fjölgun raforkuframleiðenda á Íslandi, með tilkomu fleiri smávirkjana og annarrar rafmagnsframleiðslu, kallar á breytingar á orkuviðskiptum hér heima.

Til að stuðla frekar að þessari uppbyggingu þarf að leita leiða til að þróa orkuviðskipti hérlendis í átt til þess sem tíðkast erlendis þar sem rafmagn er eins og hver önnur vara á markaði. Hér er um vandasamt verk að ræða vegna smæðar íslenska raforkumarkaðarins.

Raunverulegt afhendingaröryggi raforku

Þrátt fyrir mikla fjölgun truflana í raforkukerfinu á síðustu árum og sífellt áhættusamari rekstur kerfisins vegna aukins aflflutnings eftir byggðalínunni er mælt straumleysi á liðnu ári vel innan settra marka. Það mældist tæpar 27 mínútur sem er sambærilegt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.

Landsnet er stolt af því að geta boðið forgangsnotendum svona áreiðanlega afhendingu raforku en þessi mælikvarði sýnir hins vegar ekki alla myndina. Þegar magn varaafls, sem keyrt er í truflunum, er skoðað ásamt beitingu raforkuskerðinga til notenda, sem eru á skerðanlegum flutningi, kemur í ljós að raunveruleg frammistaða flutningskerfisins hefði verið mun lakari, eða um 214 straumleysismínútur árið 2015. Þetta er enn ein sönnun þess að nauðsynlegt er að styrkja flutningskerfið.

Áskorun til framtíðar

Íslenskt samfélag stendur á ákveðnum krossgötum. Raforkuflutningskerfið í núverandi mynd er fulllestað og þörfin fyrir frekari uppbyggingu orðin knýjandi á sama tíma og eftirspurn eftir meira rafmagni vex hratt í samfélaginu. Fram undan eru því krefjandi verkefni við að styrkja og byggja upp raforkuflutningskerfið, í góðri sátt við samfélagið, svo það geti haldið áfram að gegna hlutverki sínu til framtíðar; að veita íslenskum heimilum og atvinnulífi tryggan aðgang að rafmagni.

Fram undan eru tímar breytinga, nýrra lausna og nýrra áskorana sem Landsnet er vel í stakk búið til að mæta. Umfangsmikil stefnumótunarvinna fór fram á liðnu ári þar sem framtíðarsýn félagsins og stefna var endurskilgreind. Á þeim grunni voru stefnumarkandi áherslur og forgangsverkefni næstu ára mótuð í samstarfi við starfsfólk félagsins, ásamt nýju skipulagi og nýjum gildum sem styðja við hlutverk, framtíðarsýn og stefnu fyrirtækisins. Starfsfólki eru færðar bestu þakkir fyrir framlag þess og vel unnin verk á liðnum árum.