Um Landsnet

stefnuskjal_island2

Landsnet hf. er ábyrgt og framsækið þjónustufyrirtæki með öfluga liðsheild starfsfólks, sterka samfélagsvitund og stefnir að því að vera í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.

Á Íslandi er aðeins eitt skilgreint flutningskerfi raforku en mörg svæðisbundin kerfi eða dreifiveitur. Landsnet á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns á Íslandi og til flutningskerfisins teljast einnig öll helstu tengivirki á landinu. Lengd línukerfisins er tæplega 3.300 km og til þess teljast línur sem eru á 66 kílóvolta (kV) spennu og hærri, auk nokkurra 33 kV lína. Hæsta spenna í rekstri flutningskerfisins er 220 kV. Stór hluti kerfisins er á 132 kV spennu og hluti á 66 kV og 33 kV. Þá eru línur á Suðvesturlandi og Austurlandi byggðar sem 420 kV línur þó rekstrarspenna þeirra sé 220 kV.

Flutningskerfið tekur við raforku beint frá aflstöðvum og flytur hana til stórnotenda og dreifiveitna. Allar virkjanir, sem eru 10 MW og stærri, tengjast flutningskerfinu sem skilar orkunni til sex stórnotenda á landinu og dreifiveitna á 59 stöðum sem flytja rafmagnið áfram um sitt dreifikerfi til notenda.

Eigendur Landsnets

Landsnet tók til starfa í ársbyrjun 2005 á grundvelli raforkulaga frá árinu 2003. Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða. Það starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrá fyrirtækisins byggir á.

  • Landsvirkjun 64.73%
  • RARIK 22.51%
  • Orkuveita Reykjavíkur 6.78%
  • Orkubú Vestfjarða 5.98%