Framkvæmdastjórn Landsnets

Stjórn Landsnets ræður forstjóra og ber hann ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins. Framkvæmdastjórn Landsnets skipa forstjóri og framkvæmdastjórar.

Forstjóri Landsnets

Guðmundur Ingi Ásmundsson

„Íslenskt samfélag stendur á ákveðnum krossgötum. Raforkuflutningskerfið í núverandi mynd er fulllestað og þörfin fyrir frekari uppbyggingu orðin knýjandi á sama tíma og eftirspurn eftir meira rafmagni vex hratt í samfélaginu. Fram undan eru því krefjandi verkefni við að styrkja og byggja upp raforkuflutningskerfið, í góðri sátt við samfélagið, svo það geti haldið áfram að gegna hlutverki sínu til framtíðar; að veita íslenskum heimilum og atvinnulífi tryggan aðgang að rafmagni.“

Guðmundur Ingi er fæddur árið 1955. Hann tók við stöðu forstjóra Landsnets 1. janúar 2015 og var aðstoðarforstjóri fyrirtækisins frá ársbyrjun 2008 og þar áður framkvæmdastjóri kerfisstjórnar og kerfisstjóri Landsnets þegar félagið tók til starfa í ársbyrjun 2005. Áður starfaði Guðmundur Ingi hjá Landsvirkjun í 23 ár, fyrst sem verkfræðingur á rekstrardeild og síðar yfirverkfræðingur og deildarstjóri kerfisdeildar frá árinu 1993. Guðmundur Ingi lauk prófi í rafmagnsverkfræði árið 1980 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 1982.

Fjármálasvið

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og staðgengill forstjóra

„Við berum ábyrgð á fjármálum Landsnets, reikningshaldi, fjárstýringu, innkaupum, stjórnendaupplýsingum, tekjumörkum, áætlanagerð, gerð spálíkana og áhættustjórnun félagsins. Innan sviðsins eru einnig hagrænar greiningar sem styðja við tekju- og gjaldskrárgreiningar, áreiðanleika spálíkana, eignastýringu fyrirtækisins og mat á fjárfestinga- og rekstrarákvörðunum. Þá heyrir rekstur fasteigna og mötuneytis undir fjármálasvið.“

Guðlaug er fædd árið 1966. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá Landsneti í mars 2008. Guðlaug er menntaður viðskiptafræðingur með cand.oecon gráðu frá Háskóla Íslands.

Stjórnunarsvið

Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri

Við þjónustum viðskiptavini og þróum skilmála raforkuflutningskerfisins og erum jafnframt heimili mannauðsmála og innri þjónustu. Við vinnum þannig að verkefnum sem stuðla að aukinni samlegð, skilvirkni og samvinnu.“

Einar er fæddur árið 1972. Hann var ráðinn markaðs- og þjónustustjóri Landsnets árið 2014 og framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs fyrirtækisins frá 1. júní 2015. Áður starfaði hann Einar hjá ÁTVR sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs. Einar er með cand.oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá sama skóla.

Þróunar- og tæknisvið

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri

„Við vinnum áætlanir um uppbyggingu og þróun flutningskerfisins fyrir allar framkvæmdir á vegum Landsnets og stýrum rannsóknum, umhverfismati og undirbúningsverkum sem nauðsynleg eru til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Innan sviðsins er tæknisetur sem undirbýr framkvæmdir og veitir tækniþjónustu þvert á svið ffyrirtækisins.“

Sverrir er fæddur árið 1976. Hann hóf störf hjá Landsneti árið 2010, fyrst sem deildarstjóri upplýsingatæknideildar og síðan sem deildarstjóri kerfisþróunardeildar áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs 1. júní 2015. Sverrir er menntaður rafmagnsverkfræðingur, með B.Sc. próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. próf í rafmagnsverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU).

Kerfisstjórnunarsvið

Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri

„Við berum ábyrgð á öruggum rekstri raforkukerfisins og kerfisstjórnun. Það felur í sér að tryggja jafnvægi á hverjum tíma á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu, samræmingu áætlana um rof rekstrareininga og stjórnun aðgerða í rekstrartruflunum. Aðstæður í raforkukerfinu eru síbreytilegar og kerfið þarfnast stöðugrar vöktunar og oft og tíðum skjótra viðbragða. Sviðið ber jafnframt ábyrgð á upplýsingatæknikerfum fyrirtækisins og er miðstöð snjallnetsvæðingar raforkukerfisins.“

Íris er fædd árið 1976. Hún hóf störf hjá Landsneti 2006 og var deildarstjóri kerfisþróunardeildar til 2010 og síðan deildarstjóri kerfisstjórnar og markaðar þar til um mitt ár 2015  að hún var ráðin framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs. Íris er menntaður rafmagnsverkfræðingur, með B.Sc. próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. próf í rafmagnsverkfræði frá Kungliga Tekniska Högskolan (KTH) í Stokkhólmi.

Framkvæmda- og rekstrarsvið

Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri

„Við höldum utan um og stýrum öllum framkvæmdum við uppbyggingu og endurnýjun á flutningskerfi Landsnets. Við höfum einnig umsjón með viðhaldi, eftirliti og viðgerðum á flutningsvirkjum fyrirtækisins og þar er mat á ástandi flutningskerfisins meðal lykilverkefna.“

Nils er fæddur árið 1966. Hann hefur starfað hjá Landsneti frá því félagið tók til starfa árið 2005, fyrst sem deildarstjóri kerfisstjórnar og deildarstjóri framkvæmda frá 2010 en 1. júní 2015 var hann ráðinn framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs. Frá 1993 til 2005 starfaði Nils hjá Landsvirkjun, fyrst sem verkfræðingur og síðan sem yfirmaður stjórnstöðvar frá 2001. Nils er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU).