Ný stefna

Ný framtíðarsýn og stefna Landsnets var mótuð árið 2015 í kjölfar þess að Guðmundur Ingi Ásmundsson var ráðinn forstjóri fyrirtækisins 1. janúar 2015.

Meginmarkmið stefnumótunarinnar var að fyrirtækið yrði enn betur í stakk búið til að mæta áskorunum sem fram undan eru í þróun og uppbyggingu raforkukerfisins. Samhliða var skipulagi Landsnets breytt til að styðja við innleiðingu nýrrar stefnu, fimm ný meginsvið mótuð og framkvæmdastjórar ráðnir til að stýra þeim.

Skipurit Landsnets

Skipulagsbreytingarnar tóku gildi 1. júní 2015 og fellur starfsemi Landsnets nú undir stjórnunarsvið, fjármálasvið, þróunar- og tæknisvið, kerfisstjórnunarsvið og framkvæmda- og rekstrarsvið. Viðskiptamannaráð verður formlegur ráðgefandi vettvangur samráðs og umræðu um þróun raforkuflutningskerfisins og framtíðarþarfir viðskiptavina Landsnets.

skipurit_2015

 

Hlutverk

Hlutverk Landsnets er að tryggja hagkvæma uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins, en örugg og ótrufluð raforka er ein af meginstoðum nútímasamfélags. Þá ber Landsneti einnig að sjá til þess að í raforkukerfinu á hverjum tíma sé jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar rafmagns.

Þannig gegnir Landsnet lykilhlutverki í því að íbúar og atvinnulíf njóti ávallt tryggrar raforku.

Tryggja og viðhalda hæfni flutningskerfis raforku til lengri tíma og viðhalda jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar rafmagns á hverjum tíma

Framtíðarsýn

Rafvædd framtíð í takt við samfélagið er kjarninn í framtíðarsýn Landsnets. Nútímasamfélög reiða sig í æ ríkari mæli á örugga afhendingu raforku og því er nauðsynlegt að treysta rekstur flutningskerfis raforku.

Landsnet hefur sett sér það markmið að tryggja örugga afhendingu á raforku til framtíðar og að viðhalda jafnvægi milli framleiðslu og notkunar. Fyrirtækið ætlar að ná eins breiðri sátt og mögulegt er um þær leiðir sem farnar verða og taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna.

Landnet einsetur sér jafnframt að stuðla að heilbrigðu markaðsumhverfi á raforkumarkaði og hagkvæmri nýtingu fjármuna.

Rafvædd framtíð í takt við samfélagið

Gildi

Samhliða nýrri stefnumótun setti starfsfólk Landsnets sér ný gildi á árinu sem ætlað er að vera leiðarljós í samskiptum við viðskiptavini fyrirtækisins og á milli starfsfólks.

Gildi Landsnets eru ábyrgð, samvinna og virðing og móta menningu fyrirtækisins og afstöðu, viðhorf og hegðun starfsfólks og styðja við fagmennsku og skilvirka ákvarðanatöku.

  • Virðing felur í sér jákvæða og umburðarlynda afstöðu gagnvart skoðunum og störfum annarra
  • Samvinna birtist í liðsheild og að hlusta á ólík sjónarmið.
  • Störfum er sinnt af ábyrgð og í samræmi við það mikilvæga samfélagslega hlutverk sem Landsnet gegnir.

.

netbordi-800x145-final

Stefna Landsnets

stefnusnakurinn450Stefna Landsnets byggir á hlutverki fyrirtækisins og framtíðarsýn og er ætlað að stuðla að því að það ræki hlutverk sitt af natni og í sem víðtækastri sátt við samfélag og umhverfi.

Stefnan kristallast í loforðum til samfélagsins um öruggt rafmagn og gæði og öryggi flutningskerfisins til framtíðar, sátt við samfélag og umhverfi, skilvirkan rekstur, upplýsta umræðu og markvissa stjórnun og skipulag. Loforðin eru:

Öruggt rafmagn – gæði og öryggi flutningskerfisins til framtíðar

Landsnet stuðlar að því að þegnar samfélagsins, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, hafi á hverjum tíma aðgang að rafmagni í því magni og þeim gæðum sem þörf er á. Forgangsáherslur til framtíðar eru skilgreindar og þau viðmið sem unnið er eftir varðandi áreiðanleika, öryggi og gæði. Landsnet vinnur að því að ná breiðri sátt um forsendur framkvæmda og fjárfestinga.

Í sátt við samfélag og umhverfi

Mikilvægt er að sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets og áherslur og skilningur á því að flutningskerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Landsnet vinnur að því að skapa sátt um hlutverk, starfsemi og mikilvægi félagsins sem eins af burðarásum samfélagsins. Áherslan beinist að samfélagsábyrgð sem er samtvinnuð stefnu félagsins. Fyrirtækið á frumkvæði að stöðugu samtali við hagsmunaaðila sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Við uppbyggingu og rekstur flutningskerfisins eru óæskileg áhrif á umhverfið lágmörkuð.

Góð nýting fjármuna – skilvirkur rekstur

Styrking flutningskerfis og áhersla á útrýmingu flöskuhálsa stuðlar að heilbrigðu fjárfestingaumhverfi fyrir aðila á orkumarkaði og minni sóun í raforkugeiranum í heild. Áherslan er á flutningsnetið „frá vöggu til grafar“ í ákvörðunum um fjárfestingar og rekstur og tekið mið af þjóðhagslegum hagsmunum. Landsnet fer vel með þá fjármuni sem fyrirtækinu er trúað fyrir, sýnir ráðdeild, kostnaðarvitund og hagsýni við uppbyggingu og rekstur flutningskerfa.

Skýr ímynd

Landsnet vill byggja upp skýra ímynd sem tengist fagmennsku, trausti og samfélagsábyrgð. Áhersla er lögð á að starfa sem nútímalegt og framsækið fyrirtæki sem skoðar ólíkar lausnir með opnum huga og með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Landsneti er umhugað um að upplýsingagjöf sé ítarleg, auðskiljanleg, heiðarleg og hreinskilin.

Markviss stjórnun og skipulag

Stjórnskipulag styður við hlutverk, stefnu og meginstarfsemi fyrirtækisins á skýran og markvissan hátt sem og þau loforð sem Landsnet gefur viðskiptavinum og samfélaginu. Áhersla er lögð á einfalt og skilvirkt skipulag með sterkum meginstoðum og skýrum hlutverkum þar sem ferli mála er skoðað á heildstæðan hátt. Samhliða er lögð áhersla á stöðugar umbætur til að einfalda ferla, auka skilvirkni og bæta hagkvæmni almennt. Landsnet beitir skipulögðum starfsháttum og vinnur að stöðugum umbótum þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og uppfyllir viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni.

Góður vinnustaður

Landsnet ber umhyggju fyrir sérhverjum starfsmanni og veitir honum tækifæri til að takast á við spennandi verkefni og þróast í faglegu og metnaðarfullu umhverfi. Landsneti er umhugað um að skapa góðan vinnustað þar sem menning og samskipti einkennast af gildum fyrirtækisins og starfsfólk fær tækifæri til að þróast og dafna. Ríkjandi er þjónustuhugsun og umhyggja fyrir þörfum viðskiptavina, starfsfólks, samfélagsins og umhverfisins. Stöðugt er unnið að heilsuvernd, persónuöryggi og rekstraröryggi og lögð áhersla á að starfsfólk hafi sameiginlega sýn á gildi, tilgang og hlutverk Landsnets.