Stjórn Landsnets

Stjórn Landsnets skipa Geir A. Gunnlaugsson, fyrrverandi forstjóri Marels og Sæplasts/Promens, Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika, og Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice. Varamaður í stjórn er Svava Bjarnadóttir, fram­kvæmda­stjóri og eig­andi Kapituli ehf.

Stjórn Landsnets er skipuð til eins árs í senn og fer hún með æðsta vald í málefnum fyrirtækisins á milli aðalfunda. Til að fullnægja lögbundnum kröfum um fyllsta hlutleysi og jafnræði í störfum ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og að öllu leyti óháðir fyrirtækinu og hluthöfum sem og öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu og sölu raforku.

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður

Geir A. Gunnlaugsson er fæddur árið 1943. Hann er formaður stjórnar Landsnets og var fyrst kjörinn á aðalfundi 31. mars 2011. Geir hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, bæði innlendra og erlendra, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

Geir stundaði nám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, lauk M.Sc. prófi í vélaverkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur og Ph.D. prófi frá Brown University í Bandaríkjunum. Hann var prófessor í vélaverkfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands á árunum 1975 til 1986 og framkvæmdastjóri Kísilmálmvinnslunnar á Reyðarfirði 1983 − 1987. Frá 1987 til 1999 var Geir framkvæmdastjóri Marels, framkvæmdastjóri Hæfis og stjórnarformaður Reyðaráls árin 2000 − 2002 og framkvæmdastjóri Sæplasts/Promens frá 2003 til 2006.

Ómar Benediktsson, stjórnarmaður

Ómar Benediktsson er fæddur árið 1959. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landsnets 29. mars 2012. Ómar hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, bæði innlendra og erlendra, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

Ómar stundaði nám í Háskóla Íslands og útskrifaðist sem cand.oecon af fyrirtækjasviði viðskiptafræðideildar skólans. Ómar starfaði við stjórnunarstörf í ferða- og flugmálum í þrjá áratugi. Í byrjun árs 2012 skipti hann um starfsvettvang og er nú framkvæmdastjóri Farice sem sér um fjarskiptasamband Íslands við umheiminn og stuðlar að uppbyggingu gagnaversiðnaðar á Íslandi.

Svana Helen Björnsdóttir, stjórnarmaður

Svana Helen Björnsdóttir er fædd árið 1960. Hún var fyrst kjörin í stjórn Landsnets 31. mars 2009. Svana hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

Svana stundaði nám í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands og framhaldsnám við Technische Universität Darmstadt í Þýskalandi þaðan sem hún lauk Dipl.Ing. meistaraprófi í raforkuverkfræði árið 1987. Svana hefur einnig lokið námi í rekstrarverkfræði við Háskóla Íslands og leggur nú stund á doktorsnám í áhættugreiningu við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Svana stofnaði fyrirtækið Stika árið 1992 og er þar framkvæmdastjóri. Hún var formaður Samtaka iðnaðarins 2012-2014 og sat þá samtímis í framkvæmdastjórn og stjórn Samtaka atvinnulífsins.