Öryggi, heilsa og vinnuumhverfi

Hjá Landsneti hafa öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismál ávallt verið í öndvegi enda samþáttuð í þeim mikilvæga öryggisbrag sem þróast hefur hjá Landsneti frá upphafi. Landsnet gerir ekki málamiðlanir í öryggismálum og áhersla er lögð á slysalausan vinnustað þar sem meginmarkmiðið er að allir þeir sem starfa á vegum Landsnets snúi heim heilir á húfi að vinnudegi loknum.

Eitt fjarveruslys

Eitt fjarveruslys varð hjá Landsneti árið 2015 sem rekja má til falls starfsmanns í hálku á leið til vinnu. Þetta er sami fjöldi fjarveruslysa og í fyrra en vegna fækkunar vinnustunda hjá félaginu hækkar slysatíðnin örlítið á milli ára eftir að hafa farið stöðugt lækkandi árin áður. H-stuðull eða LTIFR var 0,79 í árslok 2015 miðað við 200 þúsund vinnustundir en var 0,68 árið áður.

Þjálfun starfsfólks Landsnets í öryggismálum hefur eflst með hverju ári og á það hrós skilið fyrir frammistöðuna enda varð ekkert fjarveruslys í kjarnastarfsemi félagsins. Allur samanburður við önnur fyrirtæki á Íslandi með svipað starfsumhverfi er Landsneti einnig mjög í hag.

Sagan endalausa

Þrátt fyrir góða frammistöðu er ávallt hægt að gera betur og er allt starfsfólk félagsins mjög meðvitað um það. Kappkostað er að skrá öll öryggisatvik, hversu léttvæg sem þau eru, svo hægt sé að bregðast við með forvörnum. Hafa skráningar aukist ár frá ári sem er jákvætt því eftir því sem meiri og betri upplýsingar berast er auðveldara fyrir félagið að bregðast við og reyna að fyrirbyggja óhöpp.Útgáfa og öryggisstaðlar

Eitt mikilvægasta verkfæri öryggismála hjá Landsneti er öryggishandbókin. Bókin er í stöðugri þróun miðað við nýjar upplýsingar og tíðarandann hverju sinni og hornsteinn öflugrar öryggisstjórnunar félagsins.

Fjölmörg fyrirtæki hafa fengið að nota öryggishandbók Landsnets sem grunn að eigin öryggishandbók. Hefur félagið tekið öllum slíkum beiðnum vel enda samfélagslega mikilvægt að samræma eins og kostur er hugtök og vinnufyrirkomulag öryggismála.

Góð reynsla er einnig af leiðbeiningarritinu  „Svona gerum við“ sem gefið var út árið 2014 þar sem settar eru fram kröfur um samræmt fyrirkomulag öryggismála í starfsstöðvum Landsnets. Ritið setur hönnuðum og rekstraraðilum ákveðin einsleit viðmið sem fylgt skal við rekstur og byggingu nýrra  mannvirkja.

Rúm tvö ár eru frá því að öryggisstaðallinn OHSAS 18001 var tekinn upp hjá Landsneti. Ágæt reynsla er af staðlinum sem skerpt hefur á öryggisvitund starfsfólks og skilar betri árangri í öryggismálum. Nýr öryggisstaðall tekur við af OHSAS 18001 í október 2016. Það er ISO 45001, „Occupational health and safety management systems“, og er það fyrsti ISO staðallinn sem tekur á persónuöryggismálum. Staðallinn er samræmdur ISO 9001 og ISO 14001.

Á árinu var, í samvinnu við Samorku, unnið að því að koma á fót öryggisnámi fyrir starfsmenn verktaka þar sem gefið yrði út skírteini sem staðfesti þátttöku þeirra í náminu. Ætla fyrirtæki innan Samorku og álfyrirtækin að taka þetta fyrirkomulag upp og verður þess þá krafist að allir þeir sem starfa fyrir Landsnet hafi slíkt skírteini.

Neyðarstjórn Landsnets

Skipulag neyðarstjórnar Landsnets tók verulegum breytingum á síðasta ári með það að markmiði að gera starfsemi neyðarstjórnarinnar eins hnitmiðaða og kostur er. Fjölmörg málefni eru tekin til úrlausnar hjá neyðarstjórn, möguleg vátilfelli rædd og leitað lausna. Jarðhræringarnar, sem áttu sér stað í norðanverðum Vatnajökli, höfðu umfangsmikla vinnu í för með sér fyrir neyðarstjórnina en juku um leið bæði þekkingu og getu til að takast á við hvers konar vá.

Neyðastjórnaræfingar eru mikilvægur þáttur í þjálfun neyðarstjórna og því er mikilvægt að vanda til þeirra og fá sem flesta til þátttöku. Mjög jákvætt er að finna vaxandi áhuga á þátttöku í æfingum Landsnets hjá fyrirtækjum innan orkugeirans og meðal opinberra stofnana. Slíkt samstarf styrkir öll samskipti og eykur á gagnkvæman skilning fyrirtækja í vá.

Æfing 1511

Í kjölfar jarðhræringanna í Vatnajökli ákvað Landsnet að ráðast í neyðarstjórnaræfingu sem skyldi vera framhald æfingar sem fram fór haustið 2013 vegna ímyndaðra eldsumbrota í Vatnajökli. Nú skyldi ganga mun lengra í viðbrögðum og kalla eftir þátttöku stjórnvalda ásamt því að láta reyna á alls kyns áreiti annað.

Æfingin fór fram þann 12. nóvember og reyndi mjög á samstarf og samhæfingu í raforkugeiranum vegna gríðarlega skemmda á raforkukerfinu á Suðurlandi og tilheyrandi neyðarástands í kjölfar eldgoss í vestanverðum Vatnajökli. Þátttakendur voru hátt í 200 talsins og voru umfangsmiklar sónvarpsútsendingar með fréttum af gangi mála og viðtölum við þátttakendur hluti æfingarinnar.

Auk Landsnets og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar, tóku flestöll aðildarfélög neyðarsamstarfs raforkukerfisins (NSR) þátt í æfingunni ásamt almannavörnum, Veðurstofunni og fjölmörgum öðrum stofnunum og félögum. Var það samdóma álit allra að æfingin hefði tekist með miklum ágætum enda komu fjölmörg atriði í ljós í æfingunni sem bregðast þarf við til að tryggja enn skjótari og betri viðbrögð allra hagsmunaðila ef slíka vá bæri að dyrum.

Neyðaræfing h264 from Landsnet on Vimeo.

NSR − Neyðarsamstarf raforkukerfisins

Um 10 ár eru liðin frá því að hafist var handa við að forma neyðarsamstarf raforkukerfisins (NSR) og hefur starfsemin aukist jafnt og þétt.

NSR er samstarfsvettvangur Landsnets, raforkuframleiðenda, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila vegna vár sem gæti steðjað að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku á Íslandi. Innviðir landsins byggja á því að hafa örugga raforku og markmiðið NSR er að samræma viðbrögð í vá og deila upplýsingum meðal þátttakenda. Stærsti viðburður NSR á árinu var þátttaka NSR félaga í æfingu 1511 í nóvember.

Óskir hafa komið fram frá NSR félögum um að samstarfið verði eflt enn frekar. Það kallar á endurskoðun á regluverki NSR og að starfseminni verði markaður ákveðinn tekjustofn.

NordBER

Nordisk Berednings Forum (NordBER) er vettvangur raforkuflutningsfyrirtækja og orkustofnana á Norðurlöndunum um rekstraröryggismál. Þátttökulöndin deila þekkingu og veita aðstoð yfir landamæri, auk þess sem haldnar eru sameiginlegar æfingar vegna ýmissa vátilfella. Starfsemi NordBER fer að mestu fram á þremur árlegum samráðsfundum. Fjölmargar vinnunefndir eru starfræktar á vegum NordBER og hefur þátttaka í þeim skilað Landsneti töluverðri þekkingu.

Orðskýringar

Fjarveruslys eru slys sem valda fjarveru frá vinnu í meira en einn dag frá slysadegi.

H-stuðull stendur fyrir „hyppighet“, eða tíðni.

LTIFR er stuðull fjarveruslysatíðni (Lost time injury frequency rates).