Starfsfólkið okkar

Landsnet nýtur þess að hafa í sínum röðum bæði hæft og reynt starfsfólk. Í árslok 2015 voru fastráðnir starfsmenn félagsins samtals 114, þar af voru 80% starfsmanna karlar en 20% konur. Starfsfólk Landsnets er vel menntað og býr yfir sérhæfðri þekkingu. Fjölmennustu hóparnir eru með rafiðnmenntun og háskólanám á sviði verk- og tæknifræði en að öðru leyti er starfsfólk Landsnets með fjölbreytta menntun og reynslu.

Starfsfólk Landsnets tók virkan þátt í mótun nýrrar framtíðarsýnar og stefnu félagsins á árinu með þátttöku í stefnumótunarvinnu, s.s. könnunum, viðtölum og greiningum og lagði þannig sitt af mörkum við mótun nýrra áherslna félagsins.

Skipulagi Landsnets var einnig breytt á árinu til að styðja við innleiðingu nýrrar stefnu. Fimm ný svið voru mótuð og eru allir framkvæmdastjórarnir, sem ráðnir voru til að stýra þeim, frá Landsneti. Allt starfsfólk hefur lagst á eitt við mótun nýrra sviða félagsins og margir reyndar færst til í starfi í kjölfar skipulagsbreytinga og nýrra áherslna og eignast þannig nýja starfsfélaga.

Á árinu voru sex nýir starfsmenn ráðnir til starfa hjá Landsneti og starfsmannavelta var rúm 6%. Gert er ráð fyrir aukinni starfsmannaveltu á næstu árum sökum aldurstengdra starfsloka en 24% starfsfólks Landsnets eru 60 ára og eldra. Þannig eru t.d. tæp 20% starfsfólks með yfir 31 árs starfsreynslu hjá félaginu eða forverum þess.

Landsnetsskólinn

Ötullega hefur verið unnið að uppbyggingu þjálfunar og fræðslu starfsfólks Landsnets á undanförnum árum með það að markmiði að stuðla að stöðugum umbótum og tryggja að starfsfólkið hafi til að bera þá hæfni og þekkingu sem þarf til að takast á við verkefni dagsins í dag og framtíðaráskoranir fyrirtækisins.

Lögð er áhersla á að þjálfunin sé stefnumiðuð og mótist af þeim markmiðum sem sett hafa verið hjá félaginu um þjálfun og fræðslu. Stuðst er við þarfagreiningar til að meta þjálfunarþörf og í kjölfarið er gefin út þjálfunaráætlun Landsnetsskólans og endurspeglar hún sérhæfða starfsemi fyrirtækisins enda er það að hluta til markmið námskeiðanna að miðla áfram þeirri miklu og sérhæfðu þekkingu sem starfsfólk Landsnets býr yfir. Haldin voru 35 sérhæfð námskeið fyrir hópa innan Landsnets á árinu og voru þátttakendur samtals 497.

Allir nýir starfsmenn Landsnets fá nýliðaþjálfun þar sem skilgreint er hvaða þjálfun þeir þurfa á að halda fyrstu mánuðina í starfi, auk þess sem hver nýliði fær sinn „fóstra“ sem aðstoðar hann við að komast inn í starfið. Markmiðið nýliðaþjálfunar er:

  • Að starfsfólk fái kynningu á starfsemi Landsnets og geti samsamað sig stefnu og gildum fyrirtækisins.
  • Að starfsfólk fái þjálfun og kennslu á tæki, tól og verkferla sem það þarf að nota við störf sín þannig að það nái tilætlaðri frammistöðu í starfi sem fyrst.
  • Að starfsfólk fái sérhæfða þjálfun sem er skilgreind sem nauðsynleg til að það geti sinnt sínu starfi vel.
  • Að starfsfólki líði vel í starfi og fái stuðning þegar það hefur störf.

Sumarstörf nema

Sumarið 2015 voru ráðnir inn til fyrirtækisins 16 háskólanemar og 30 ungmenni til sumarvinnu. Áhersla er lögð á að háskólanemar fái tækifæri til að takast á við raunverkefni á sínu námssviði og vill Landsnet með þessu leggja sitt af mörkum til samfélagsins til að stuðla að menntun og þekkingu á sviði raforku.