Náms- og samfélagsstyrkir

Á ári hverju leggur Landsnet lið samfélagslegum verkefnum sem tengjast starfssviði fyrirtækisins eða þeim verkefnum sem unnið er að á þess vegum.

Samstarf við Háskólann í Reykjavík

Samstarfssamningur var undirritaður á árinu milli Landsnets og Háskólans í Reykjavík um starfsnám hjá félaginu fyrir nemendur við tækni- og verkfræðideild skólans. Hann er til fimm ára og felur m.a. í sér eflingu sérfræðiþekkingar nemenda á sviðum áhættugreiningar og flutnings raforku.

Landsnet og rannsóknarsetrið CORDA (Center of Risk and Decision Analysis) við Háskólann í Reykjavík hafa einnig gert með sér samning um styrki til doktorsnema til að auka þekkingu og menntun á sviði áhættu- og ákvörðunarfræða, sem eru þau fræðasvið sem CORDA leggur áherslu á.

Stuðningur við verkfræðinema í Háskóla Íslands

Landsnet styður verkfræðinema við Háskóla Íslands sem stóðu sig vel á árinu í keppni við aðra háskóla í smíði rafmagnskappakstursbíls. „Team Spark“ kallast verkefnið sem hefur að markmiði að skila betri og reyndari verkfræðinemum út í atvinnulífið með því að láta þá takast á við raunveruleg verkefni og þjálfa þá í að nota þá þekkingu sem þeir hafa öðlast í náminu.

Nýr hópur tók við keflinu í haust og ætlar sér að endurbæta rafmagnskappakstursbílinn enn frekar og taka þátt í sjálfum Formula Student kappakstrinum á Silverstonebrautinni á Englandi sumarið 2016.

Stuðningur við líknarfélög

Í stað þess að senda viðskiptavinum sínum jólakort styrkir Landsnet árlega líknar- og velferðarsamtök sem nemur þeim útgjöldum og var styrknum fyrir árið 2015 deilt milli Styrktarfélags barna með einhverfu og Specialisterne á Íslandi, sem er sjálfseignastofnun sem vinnur að því að hjálpa einstaklingum á einhverfurófinu til sjálfshjálpar. 

Samstarfssamningur við Landsbjörgu

Á árinu var endurnýjaður til næstu þriggja ára samstarfssamningur Landsnets, Landsvirkjunar og Rarik við Slysavarnafélagið Landsbjörgu. Samningurinn tryggir raforkufyrirtækjunum aðstoð björgunarsveita í vá eða við önnur tilvik þar sem aðstoðar er óskað. Einnig felst í samningnum að starfsfólk raforkufyrirtækjanna hefur aðgang að þjálfun í Björgunarskóla Landsbjargar og að skilgreindir verkferlar séu til staðar í viðbragðskerfi björgunarsveitanna þegar orkufyrirtækin þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Ýmis verkefni

Ýmis upplýsingatækniverkefni Landsnets og samstarfsaðila félagsins hafa komið samfélaginu til góða.

  • Tetra hóp- og öryggisfjarskiptakerfið: Í samvinnu við samstarfs- og þjónustuaðila Landsnets hefur verið byggt upp öruggt og víðfeðmt Tetra hóp- og öryggisfjarskiptakerfi. Kerfið hefur aukið verulega rekstraröryggi raforkukerfisins og öryggi starfsmanna Landsnets. Það hefur einnig aukið öryggi almennings því almannavarnir, lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir nota einnig Tetra hóp- og öryggisfjarskiptakerfið.
  • Afnot af aðstöðu: Landsnet hefur leitast við að vera ,,góður granni“ þeirra sem búa í nálægð mannvirkja félagsins. Netþjónafyrirtæki og dreifiveitur dagskrárefnis hafa t.d. fengið heimildir til að nýta aðstöðu í tengivirkjum og aflstöðvum í dreifbýli og hefur sá stuðningur verið forsenda þess að veita íbúum í dreifðari byggðum slíka þjónustu á viðráðanlegu verði. Þá hafa ábúendur á nokkrum jörðum fengið afnot af ljósleiðara Landsnets þar sem engar aðrar ljósleiðaralausnir hafa verið í boði.