Umhverfis- og loftslagsmál

Öflugt raforkuflutningskerfi er forsenda sjálfbærrar og umhverfisvænnar orkunýtingar á Íslandi og styrking kerfisins nauðsynleg ef draga á úr orkusóun sem nú á sér stað vegna takmarkana og flöskuhálsa í kerfinu. Öflugt flutningskerfi eykur líka nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda þjóðarinnar og gerir samfélaginu m.a. kleift að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir raforku í framtíðinni, s.s. í samgöngum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, í samræmi við markmið stjórnvalda um um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Yfirlýsing um markmiðasetningu í loftlagsmálum

Vilji er hjá Landsneti til að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum og var félagið í hópi þeirra 103 íslensku fyrirtækja sem skuldbundu sig haustið 2015, í aðdraganda 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, til að setja sér markmið í þeim efnum og fylgja þeim eftir með aðgerðum. Yfirlýsing þar að lútandi var undirrituð við hátíðlega athöfn í Höfða að frumkvæði Reykjavíkurborgar og Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Í framhaldinu gerðist Landsnet formlega aðili að Festu og er þar með komið í hóp á sjöunda tug íslenskra fyrirtækja sem vilja leitast við að skipuleggja starfsemi sína þannig að hún hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.

Umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir

Engin alvarleg umhverfisóhöpp urðu í starfsemi Landsnets árið 2015 enda hefur félagið einsett sér að vinna að stöðugum umbótum í þeim efnum. Umhverfisáhrif kerfisáætlunar Landsnets voru metin í annað sinn á árinu samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana.

Strangar kröfur varðandi umhverfismál eru hluti af útboðsgögnum allra fjárfestingarverkefna Landsnets. Við verklok stendur félagið fyrir úttekt á frágangi og viðskilnaði verksins m.t.t. umhverfismála í samstarfi við helstu hagsmunaaðila, s.s. fulltrúa eftirlitsstofnana, landeigenda og sveitarfélaga. Þá tekur Landsnet sem lögbundinn umsagnaraðili virkan þátt í skipulagsgerð sveitarfélaga en með því er reynt að stuðla að því að tillit sé tekið til áformaðra framkvæmda í flutningskerfinu.

Framkvæmdir við flutningskerfið hafa ýmis umhverfisáhrif í för með sér, m.a. vegna slóðagerðar, lagningar jarðstrengja og uppsetningar háspennumastra, en önnur áhrif eru huglægari.

Hellulína 2 – fyrir og eftir

Sýnileiki loftlína er að mestu leyti afturkræfur eins og niðurrif Hellulínu 2, milli Hellu og Hvolsvallar, haustið 2015 er gott dæmi um. Þar leysti jarðstrengur af hólmi 67 ára gamla loftlínu, eina þá elstu í raforkukerfi landsins, og er ásýndarbreytingin mikil, ekki síst í miðbænum á Hellu þar sem línan lá yfir hringtorgið framan við stjórnsýsluhúsið og framan við nýtt hótel þar fyrir austan, eins og sjá má á myndum hér fyrir neðan sem voru teknar fyrir og eftir að gamla línan var tekin niður.

Hella_fyrir

hella_eftir

Landgræðslusamstarf

Víða um land hafa raforkufyrirtækin átt drjúgan þátt í uppgræðslu á örfoka svæðum í nágrenni raforkukerfisins. Frá árinu 2006 hefur Landsnet unnið með Landgræðslu ríkisins að uppgræðslu og stöðvun jarðvegseyðingar í nágrenni háspennulína á afréttinum sunnan Langjökuls og einnig í Víðidal á Fjöllum.

Markmið samstarfsins er að skapa varanlega gróðurþekju á ákveðnum svæðum sunnan Langjökuls, stöðva sandfok og aðra jarðvegseyðingu og styrkja rýr gróðurlendi. Í þessu samstarfi leggur Landgræðslan til fagþekkingu og stýrir framkvæmdinni en Landsnet kostar aðföng vegna hennar. Landgræðslustarfið hefur þegar borið sýnilegan árangur. Fræbankar, sem enn lúrðu í jörðu, styrktust og ýmis grös og plöntur, eins og grávíðir og smjörgras, hafa tekið vel við sér.

Rannsóknir og útivist

Landsnet hefur í gegnum árin stutt við rannsóknir á náttúrufari, fornminjum og menningarminjum á hálendinu í tengslum við línu- og virkjanaframkvæmdir og því má til sanns vegar færa að þekking á náttúrufari landsins hafi aukist í takt við aukna raforkunotkun samfélagsins.

Af öðrum verkefnum þar sem samfélagið hefur notið góðs af í tengslum við umsvif og rekstur Landsnets, má nefna að línuvegir hafa opnað ýmsa möguleika fyrir ferðafólk til að stunda útivist á hálendinu og bætt fjarskipti, s.s. á Kárahnjúkasvæðinu, við Blöndu og víðar. Sumir línuslóðar hafa gert almenningi kleift að skoða landsvæði sem voru áður óaðgengileg nema staðkunnugum, eins og t.d. línuvegurinn með fram Sultartangalínum 1 og 3. Slóðinn liggur með fram brún hálendisins sunnan jökla og er vinsælasti hluti hans frá Kjalvegi í austri að Uxahryggjarvegi í vestri. Á þessari leið er m.a. stórfenglegt útsýni til Langjökuls, Hlöðufells og Skjaldbreiðar.