STARFSEMI LANDSNETS

Mikið álag var á starfsfólk Landsnets á árinu vegna vaxandi áraunar á flutningskerfið og þar með aukinnar rekstraráhættu. Óveður og bilanir settu svip sinn á starfsemi fyrirtækisins allt frá ársbyrjun og fram undir páska og aftur í lok ársins. Áfram var haldið með ýmiss konar rannsóknir og undirbúning vegna tenginga nýrra viðskiptavina, unnið við árlega kerfisáætlun Landsnets, umhverfismat hennar og matsáætlun vegna umhverfismats Sprengisandslínu. Þá skipar upplýsingatækni og hugbúnaðarþróun æ stærri sess í starfseminni og umfangsmikil stefnumótunarvinna bættist við önnur verkefni starfsfólks sem þó voru ærin.