Þróun flutningskerfisins

Vinna við undirbúning að styrkingu flutningskerfisins hélt áfram á árinu. Unnið var að undirbúningi við stórar framkvæmdir sem bæði snúa að styrkingu kerfisins og tengingum við nýja notendur. Samningar vegna tenginga við stórnotendur í Helguvík og á Bakka voru rannsakaðir af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til að meta hvort þeir fælu í sér ríkisaðstoð. Niðurstaða ESA var að svo væri ekki.

Ný lög tóku gildi á árinu sem breyttu ákvæðum raforkulaga um kerfisáætlun Landsnets. Þau fela í sér að kerfisáætlun verður gefin út árlega, til 10 ára í senn og skal innihalda framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára. Þá er útgáfa kerfisáætlunar hér eftir háð samþykki Orkustofnunar.

Breyttar áherslur í kerfisáætlun

Kerfisáætlun Landsnets ásamt umhverhverfisskýrslu fyrir árin 2015-2024 var kynnt á árinu  og var það í annað sinn sem kerfisáætlun fyrirtækisins fór í gegnum umhverfismat áætlana. Sérstakur þemakafli er nýjung í kerfisáætlun og fjallaði hann um mögulegan sæstreng til Evrópu og tengimöguleika hans frá sjónarhóli Landsnets. Helsta breyting frá síðustu kerfisáætlun er fækkun valkosta, úr þremur í tvo meginvalkosti, sem Landsnet metur vænlegasta til að efla flutningskerfið til framtíðar. Þeir eru annars vegar tenging yfir hálendið og hins vegar styrking núverandi byggðalínu. Kynntar eru mismunandi útfærslur þessara tveggja meginvalkosta, alls níu talsins, sem eru blanda af nýbyggingum og spennuhækkun núverandi lína.

Álitlegasti valkosturinn er talinn vera tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og austurs þó svo valkostur, sem snýr að endurnýjun byggðalínuhringsins með 220 kV línum, sé talinn kerfislega betri kostur þegar horft er til einstakra matsþátta eins og sveigjanleika orkuafhendingar, aukins flutnings, kerfisstyrks og afhendingaröryggis. Það sem gerir hins vegar byggðalínuvalkostinn óálitlegri en hálendisleiðina eru umhverfisþættir og hærri framkvæmdarkostnaður, auk þess sem talið er að hann muni ekki skila kerfislegum kostum sínum að fullu fyrr en öllum áföngum framkvæmdanna er lokið.

Valkostur2

Drög að kerfisáætlun ásamt umhverfisskýrslu voru lögð fram til kynningar hjá Skipulagsstofnun og á heimasíðu Landsnets um mitt ár. Efni þeirra var einnig kynnt á vel sóttum fundi á Hótel Natura sem sjónvarpað var frá á netinu. Alls bárust 59 athugasemdir við drög að kerfisáætlun og voru efnisleg svör við þeim birt á heimasíðu Landsnets í nóvember og send umsagnaraðilum.

ln_fundur

Kerfisáætlun þarf samþykki Orkustofnunar

Samkvæmt breytingum á raforkulögum, sem tóku gildi í júní 2015, er það nú hlutverk Orkustofnunar að samþykkja kerfisáætlun Landsnets og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Ber Orkustofnun að hafa til hliðsjónar markmið sem fram koma í raforkulögum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Þar sem þetta er fyrsta kerfisáætlunin sem Landsnet vinnur eftir breyttum lagaramma hefur það óhjákvæmilega haft nokkur áhrif á vinnsluferlið. Uppfærð kerfisáætlun, að loknu almennu umsagnarferli, var send Orkustofnun í lok nóvember og var þá viðskiptavinum Landsnets gefinn frestur fram í janúar 2016 til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við áætlunina. Ekki tókst því að fá kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2015-2024 samþykkta fyrir árslok 2015 en vonir standa til að ferlinu verði lokið á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016.

Umhverfismat kerfisáætlunar

Samhliða kerfisáætlun var gefin út umhverfisskýrsla í annað sinn þar sem horft var til þeirra tveggja valkosta sem kynntir voru í kerfisáætlun. Heildstætt mat var lagt á möguleg umhverfisáhrif þeirra og einnig var hver einstakur valkostur metinn sérstaklega og þeir bornir saman.

Við matið var horft til umhverfisþátta sem líklegt er talið að verði fyrir áhrifum af framkvæmd kerfisáætlunar og mögulegar mótvægisaðgerðir nefndar. Sú breyting var gerð frá fyrra ári að ferðaþjónusta var metin sérstaklega en ekki almennt með annarri atvinnuuppbyggingu. Það var gert til að fá skýrar fram þau neikvæðu áhrif sem valkostirnir eru taldir hafa á ferðaþjónustu, í stað þess að jafna út neikvæð áhrif með jákvæðum áhrifum sem styrking flutningskerfisins hefur á aðra atvinnuuppbyggingu. Í umhverfisskýrslunni var einnig skoðuð nánari útfærsla á einum af þeim valkostum sem var kynntur í kerfisáætlun, það er útfærsla á hálendisleiðinni sem gerir ráð fyrir að 50 km langur jarðstrengur verði lagður á hluta leiðarinnar yfir Sprengisand í þeim tilgangi að draga úr sjónrænum áhrifum. Umhverfisskýrsla var lögð til kynningar og umsagnar með kerfisáætlun og barst töluverður fjöldi umsagna.

Flutningskerfi raforku – uppbygging næstu 10 árin from Landsnet on Vimeo.

Mat á umhverfisáhrifum

Til að fá úr því skorið hvort hálendisleið sé raunhæfur kostur til að styrkja flutningskerfi Landsnets hófst undirbúningur mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu árið 2014. Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt hagsmunaaðilum og almenningi síðla sama ár og undir árslok 2015 var tillaga að matsáætlun send Skipulagsstofnun til formlegrar ákvörðunar um framhald málsins, í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Mat á umhverfisáhrifum styrkingar byggðalínuhringsins frá Sigöldu að Höfn er í undirbúningi og vinna við mat á umhverfisáhrifum Kröflulínu 3, frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar, og Blöndulínu 3, frá Akureyri að Blöndustöð, hefur staðið yfir í alllangan tíma.

Mat áumhverfisáhrifum er faglegt ferli til að afla ítarlegri upplýsinga um leiðaval , útfærslu mannvirkja og möguleg umhverfisáhrif áður en tekin er ákvörðun um hvort ráðist er í umræddar framkvædmir til að styrkja flutningskerfið.

MAU_graf_use

Spálíkan vegna ísingar á línum í þróun

Ísing á mannvirkjum er víða mikið vandamál og hefur Landsnet um margra ára skeið verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og beinist aðaláherslan að þróun spálíkans fyrir ísingu á háspennulínum.

Staða rannsóknanna var kynnt af fulltrúa Landsnets á árlegri ráðstefnu samtakanna sumarið 2015 en einstakar upplýsingar úr gagnabanka Landsnets um ísingu á háspennulínum og frá tilraunalínum félagsins eru grundvöllurinn að samanburði hermunar og raunverulegra ísingargagna. Slíkur samanburður er forsenda þess til framtíðar að spálíkön verði það áreiðanleg að nota megi þau við ákvörðun álagsforsenda, sem er afgerandi þáttur við varðandi byggingarkostnað og rekstraröryggi háspennulína.