Upplýsingatækni og fjarskipti

Sem fyrr voru upplýsingatækni og fjarskipti mikilvægur þáttur í rekstri Landsnets á árinu sem og raforkuflutningskerfisins í heild. Lykilkerfi voru uppfærð, fjarskipti bætt, öryggi hert og nýjar útstöðvar í orkustjórnkerfi félagsins teknar í notkun.

Hugbúnaðarkerfi fyrir reglunaraflsmarkað

Vinna hófst á árinu við að þróa nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir reglunaraflsmarkað sem heldur utan um tilboð í raforku og sendir stýrigildi í orkustjórnkerfi Landsnets til að halda jafnvægi í raforkukerfinu. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og var samið við hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri. Vonir standa til að nýi búnaðurinn verði kominn í gagnið seinni hluta árs 2016. Hann hefur fengið nafnið Reskja og leysir af hólmi svokallaðan Reglunarskjá sem er mikilvægt stoðkerfi í stjórnstöð Landsnets.

Aðgerðastjórinn SAReye

Á árinu lauk innleiðingu á aðgerðastjórnunarkerfinu SAReye. Þar með er Landsnet komið í hóp með almannavörnum og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu sem nota þennan hugbúnað við dagleg störf sín. Kerfið heldur utan um öll atvik í rekstri raforkukerfisins og er aðgengilegt alls staðar þar sem hægt er að komast á netið. Töluverð aðlögunarvinna fór fram á árinu til að laga SAReye að þörfum Landsnets og áframhaldandi þróunarvinna er fyrirhuguð árið 2016 sem mun auka notagildi aðgerðagrunnsins enn frekar fyrir félagið.

Flokkunarkerfi rekstrartruflana

Nýtt flokkunarkerfi, sem segir til um alvarleika rekstrartruflana í raforkukerfinu, var tekið í gagnið á árinu og á það að tryggja skjótari og skilvirkari upplýsingagjöf til viðskiptavina, jafnt notenda raforku sem framleiðenda, ekki síst ef grípa þarf til flutningstakmarkana eða raforkuskerðinga í kjölfar umfangsmikilla raforkutruflana.

Flokkunarkerfið byggir á skilgreiningum Samtaka evrópskra flutningsfyrirtækja (ENTSO-E) um alvarleika truflana, auk þess sem bætt hefur verið við flokkum sem taka til séraðstæðna í íslenska raforkukerfinu. Truflanakerfið hefur líka verið lagað að öðrum íslenskum viðbragðskerfum, t.d. er alvarleikastig rekstrartruflana í raforkukerfinu flokkað eftir sama litakóða og almannavarnir nota. Grænt (0) táknar minniháttar atburð, gult (1) táknar umfangsminni atburði, rautt (2) táknar umfangsmikinn atburð og svart (3) táknar mjög alvarlegan atburð sem getur endað í algeru kerfishruni.

Þróun flokkunarkerfisins hófst síðsumars 2014 þegar ljóst var að eldsumbrota væri að vænta í norðanverðum Vatnajökli. Standa vonir til að það bæti stýringu aðgerða í truflanarekstri frá stjórnstöð Landsnets og hjálpi til við að samræma viðbrögð rekstraraðila.

Nýsköpunarverkefnið POLG

Landsnet gerðist bakhjarl nýsköpunarverkefnis POLG (Power On-Line Generator) á árinu 2015 en markmið þeirra sem að því standa er að búa til vöru fyrir alþjóðamarkað sem eykur rekstraröryggi flutnings- og dreifikerfa raforku, einfaldar eftirlit og viðhaldsvinnu, eykur öryggi starfsfólks og dregur úr slysahættu.

Það er fyrirtækið Laki ehf., rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki á sviði umhverfisvænna orkulausna, sem hefur þróað POLG-verkefnið sem byggist á því að nýta rafsegulsvið háspennulína til raforkuframleiðslu. Um afar vistvæna lausn er að ræða sem er ætlað að skila nægu afli til að aflfæða eða knýja áfram hverskyns rafbúnað, svo sem fjarskipta- og eftirlitsbúnað.

Önnur hugbúnaðarverkefni

Þá var kerfið Rof og vinna leyst af hólmi með nýjum hugbúnaði sem gengur undir nafninu RoVi og er hann notaður til að halda utan um allar upplýsingar sem þarf um rof í raforkukerfinu vegna framkvæmda og viðhaldsverkefna. Uppgjörskerfi frá hugbúnaðarframleiðandanum CGI (áður Lettera) var uppfært á árinu í samvinnu við endursöluaðila. Einnig var nýtt ferðakerfi þróað og tekið í notkun og færist uppgjör ferða nú beint inn í fjárhagskerfi.

Öryggi og fjarskipti

Mikil áhersla er lögð á að tryggja öryggi hugbúnaðar- og upplýsingatæknikerfi Landsnets sem leika æ mikilvægara hlutverk í að tryggja rekstraröryggi flutningskerfisins. Áfram var unnið á árinu að innleiðingu ISO 27001 upplýsingaöryggisstaðalsins og framkvæmd árleg öryggisúttekt á starfseminni.

Víðsjárkerfi stjórnstöðvar (PhasorPoint) verður sífellt mikilvægara í daglegri stýringu raforkuflutningskerfisins. Lokið var við tvöföldun þess á árinu til að auka rekstraröryggi og hafin er vinna við innleiðingu víðsjármælinga og stýringa á Reykjanesi. Þá var sett upp sérstakt víðsjárkerfi fyrir Orkubú Vestfjarða sem getur nú skoðað mælingar fyrir Vestfirði.

Þá voru tengivirki Landsnets, sem áður notuðu ISDN d-rásir fyrir fjarskipti, færð yfir á 2 Mb leigulínur sem tengjast kerfi Orkufjarskipta. Mögulegt er að stækka þessi sambönd upp í allt að 24 Mb og setja upp þar til gerðan búnað til að aðskilja sambönd fyrir skrifstofunet, víðsjárkerfi stjórnstöðvar og aðra starfsemi.

Orkustjórnkerfi Landsnets

Umfang orkustjórnkerfis Landsnets hefur aukist ár frá ári og svo var einnig árið 2015. Endurnýjaðar voru útstöðvar kerfisins í Glerárskógum, Geiradal, á Laxárvatni, Hólum, Hryggstekk og í Sigöldu. Þá var nýtt stjórnkerfi í Kröflu tengt orkustjórnkerfinu og ný útstöð sett upp á Prestbakka. Jafnframt var möguleg uppfærsla orkustjórnkerfisins undirbúin.