Fjármál og rekstur

Jákvæð þróun er í rekstrarumhverfi Landsnets með nýrri reglugerð sem tryggir tekjustofn fyrirtækisins til framtíðar. Í framtíðinni verður reksturinn gerður upp í dollurum sem metinn hefur verið starfrækslugjaldmiðill félagsins. Það skapar tækifæri til að fjármagna Landsnet á hagstæðari lánakjörum en fyrirtækið hefur búið við til þessa og draga úr rekstraráhættu. Árið 2015 er því það síðasta sem ársreikningur Landsnets er birtur í íslenskum krónum.

Rekstrarfjármunir Landsnets voru endurmetnir á árinu. Endurmat á eignastofni félagsins eykur gagnsæi í rekstrinum og er verðmæti fastafjármuna fyrirtækisins nú í samræmi við verðlagsbreytingar, mat á kostnaði við endurbyggingu kerfisins og eignastofn sem Orkustofnun notar til að ákvarða tekjuramma fyrirtækisins. Þetta er fyrsta endurmatið á eignum Landsnets frá árinu 2008 þegar stjórn fyrirtækisins tók ákvörðun um að það skyldi gert með reglubundnum hætti en vegna óvissu um arðsemiskröfu hefur endurmat ekki farið fram fyrr en nú.

Helstu niðurstöður ársreiknings ( mkr. )

Fjögurra milljarða króna hagnaður

Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af rekstri Landsnets árið 2015 alls 4.010 mkr. á móti 3.762 mkr. hagnaði árið 2014. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) nam 7.491 mkr. borið saman við 6.174 mkr. árið 2014 og skýrist að mestu leyti af hagstæðri gengisþróun.

Rekstrartekjur Landsnets námu 16.183 mkr. og hækkuðu um 1.833 mkr. á milli ára, eða um 12,8%. Flutningsgjaldskrár stórnotenda og dreifiveitna breyttust ekki á árinu 2015 en flutningsmagn jókst lítilsháttar. Tekjur af flutningi til stórnotenda, sem eru í Bandaríkjadölum, jukust um 1.226 mkr. (14,5%) og skýrist það að mestu leyti af hærra gengi Bandaríkjadals (12,6%). Nemur gengisbreyting vegna þess tæpum 1,1 ma.kr. á milli ára.

Tekjur af flutningi til dreifiveitna jukust um 255 mkr. (6,8%) á árinu en gjaldskrá breyttist ekki. Forgangsflutningur til almennings jókst lítils háttar á milli ára og nokkur aukning var í ótryggum flutningi. Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutaps í flutningskerfinu jukust um 354 mkr. (18,6%) á milli ára. Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu lækkaði um 4,2% þann 1. febrúar en hækkaði aftur 1. ágúst um 12,5%. Gjaldskrá vegna orkutaps hækkaði um 24,7% þann 1. febrúar. Hækkanir í ágúst má rekja til hærra innkaupsverðs á þessum liðum en gjaldskrá er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 5.769 mkr. og hækkuðu um 561 mkr. á milli ára, eða um 11%. Hækkunin skýrist aðallega af hækkun innkaupsverðs vegna kerfisþjónustu og orkutaps um sem nam 404 mkr.

Hrein fjármagnsgjöld ársins 2015 voru 2.502 mkr. á móti 1.519 mkr. árið 2014 og hækkuðu því á milli ára um 983 mkr., eða um 64%. Gengishagnaður ársins lækkaði milli ára um 787 mkr. og nam 195 mkr. á árinu 2015.  Fyrirtækið er að mestu fjármagnað í íslenskum krónum og reiknast verðhækkanir ársins um 2% en voru um 1% á árinu 2014 og því hækkuðu verðbætur um 453 mkr. á milli ára. Á móti lækkuðu vaxtagjöld um 157 mkr.

Verðmæti eigna 103 milljarðar króna að loknu endurmati

Eignir Landsnets námu alls 102.973 mkr. í árslok 2015 samanborið við 81.859 mkr. í lok fyrra árs. Eignir skiptust þannig að fastafjármunir námu 91.983 mkr. í árslok samanborið við 66.780 mkr. í árslok 2014. Þar af námu fastafjármunir í rekstri 86.428 mkr. í árslok samanborið við 63.771 mkr. í árslok 2014.

Rekstrarfjármunir Landsnets voru endurmetnir á árinu 2015 og nam endurmatið 23.422 mkr. Fyrsta og eina endurmatið á eignum Landsnets er frá árinu 2008 þegar stjórn félagsins tók ákvörðun um að nýta heimild í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Þegar endurmati hefur verið beitt er félaginu skylt að framkvæma endurmat með reglubundnum hætti en vegna óvissu um arðsemiskröfu hefur endurmat ekki farið fram fyrr en nú. Endurmetið var stofnverð á línum og tengivirkjum fyrirtækisins í lok árs 2015. Við endurmatið var beitt tvenns konar aðferðum. Annars vegar var litið til áætlaðs endurbyggingarkostnaðar flutningskerfisins og hins vegar var lagt mat á rekstrarvirði með sjóðstreymisgreiningu. Endurmat ársins var byggt á rekstrarvirði núverandi eigna félagsins.

Langtímaskuldir og skuldbindingar Landsnets námu 56.485 mkr. en skammtímaskuldir 4.533 mkr. í árslok 2015. Til samanburðar námu langtímaskuldir 58.496 mkr. og skammtímaskuldir 4.155 mkr. í árslok 2014. Engin ný lán voru tekin á árinu en auk árlegra afborgana sem námu 967 mkr., voru greiddar 6.895 mkr. inn á stofnlán frá móðurfélaginu Landsvirkjun.

Af vaxtaberandi skuldum námu skuldir í íslenskum krónum (ISK) 90% og í svissneskum frönkum (CHF) 10%. Ekki var þörf á endurfjármögnun lána á árinu 2015 og voru afborganir lána og fjárfestingar greiddar með handbæru fé.

Eigið fé í árslok 2015 nam 41.956 mkr. að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 5.903 mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé í lok árs 2014 nam 19.208 mkr. Hlutfall eigin fjár af heildareignum nam 40,7% í árslok 2015 samanborið við 23,5% í lok árs 2014.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri árið 2015 nam 8.113 mkr. samanborið við 6.231 mkr. árið 2014. Fjárfestingahreyfingar ársins námu 4.711 mkr. og fjármögnunarhreyfingar 7.862 mkr. Handbært fé í árslok 2015 nam 8.072 mkr. og er lausafjárstaða félagsins mjög sterk.